150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ef hægt er að sýna fram á að þessi aðferð tryggi almannahag þá er það gott. Hins vegar er það þannig að lög um ríkisábyrgðir, sem voru samþykkt á sínum tíma, spretta ekki úr tómarúmi. Ein af ástæðunum fyrir því að þau voru sett var einmitt sú að ríkisábyrgð var veitt til einkafyrirtækis. Það var m.a. rótin. Það hljóta því að vera skilyrði í lögunum um ríkisábyrgðir sem einmitt henta því að veita ríkisstjórn aðhald þegar verið er að veita slík vilyrði. Ég veit að hv. þingmaður er nefndarmaður í fjárlaganefnd. Ég vil bara brýna fyrir nefndarmönnum að fara vel yfir þetta atriði því að í formreglunum felst aðhald. Í slíku aðhaldi er meira öryggi fyrir almannahag og það er það sem ég er að segja. Ef hægt er að sannfæra mig um að þessi leið sé öruggari og betri fyrir almannahag þá er það gott, en ég hef bara enn mínar efasemdir. Ég bið hv. þingmann að fyrirgefa mér það að ég hef mínar efasemdir þegar verið er að sérsníða lausnir fyrir fyrirtæki, þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki, dýrmætt fyrirtæki, með þessa flokka við stjórn og þá reynslu sem við höfum af ríkisstjórninni á þessu kjörtímabili.