150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég minntist á í upphafi ræðu minnar sýnir það vel þunga málsins og alvarleika þess að við séum að breyta lögum um ríkisábyrgðir fyrir þetta einstaka mál.

Við verðum að sjálfsögðu að gefa okkur góðan tíma til að fjalla um málið á þinglegum vettvangi þegar við erum í raun og veru að leggja fram frumvarp um breytingar á fjáraukalögum sem lúta að ríkisábyrgðinni og að auki breytingar á lögum um ríkisábyrgðir.

Varðandi aðgang að sérfræðingum myndi ég hvetja hv. þingmann, sem situr í fjárlaganefnd, til að kalla á þeim vettvangi eftir öllum þeim gögnum sem þarf og þeirri sérfræðiaðstoð sem hann og aðrir þingmenn í fjárlaganefndinni kunna að telja sig hafa not fyrir. Þingið er vettvangurinn fyrir löggjafarvaldið til að afla sér sérfræðiþekkingar, einmitt til að vera mótvægi við framkvæmdarvaldið. Og ég myndi bara hvetja hv. þingmann, sem er þekktur fyrir að spyrja margra spurninga og leita álits sérfræðinga, til að gera það í vinnunni í fjárlaganefnd.