150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Traust og ríkisábyrgðir. Það lítur út fyrir að einkafyrirtækið Icelandair sé í raun að leita eftir ákveðinni traustsyfirlýsingu frá ríkisstjórninni: Vinsamlegast veitið okkur traustsyfirlýsingu sem kemur í formi ríkisábyrgðar með eins lítilli aðkomu og hægt er til að lágmarka áhættu ríkissjóðs.

Sú traustsyfirlýsing fer fram í þessum sal, inni á þingi, ekki hjá ríkisstjórninni. Þótt ríkisstjórnin sé búin að gefa ákveðið vilyrði fer traustsyfirlýsingin samt fram hér með atkvæðum hvers eins og einasta þingmanns sem fer eftir sinni sannfæringu um það hvort fyrirtækið sé traustsins vert.

Aðferðin sem við notum til að vega og meta hvort traust í formi ríkisábyrgðar sé verðskuldað hefur verið fest í lög um ríkisábyrgðir. Segjum sem svo að þau lög séu úrelt og þarfnist endurskoðunar og að það hafi verið vitað lengi. Icelandair og ríkisstjórnin hafa einnig talað lengi saman, alveg frá því í mars einhvern tímann. Á þeim tíma hefur ríkisstjórnin aldrei sagt: Við gætum þurft að fara út í ríkisábyrgð og ættum kannski að uppfæra lögin til að við séum búin að klára það áður en til þess kemur, ef við þurfum að fara út í þann pakka sé þingið með rammann sem þarf til að við getum metið hvort rökin fyrir ríkisábyrgð séu góð.

Í staðinn er ríkisábyrgðalögunum skóflað til hliðar. Við þurfum, held ég, bara að loka augunum og ýta á takka. Og hvers konar ábyrgð eða traustsyfirlýsing er það?