150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og umræðu um ríkisábyrgðir hér í dag. Ég held að við séum sammála um flest sem lýtur að því að nefndin þurfi að gaumgæfa þetta. Við erum sammála um að ríkisábyrgðalögin veita aga og aðhald og eiga að gera það og eru mikilvæg lög.

Ég held að ábyrgð okkar löggjafans sé ekki síður minni þegar kemur að því að við höfum ekki endurskoðað þessi lög. Og ég ætla ekkert að loka augunum og ýta á einhvern takka, bara svona blint. Við höfum kallað eftir minnisblaði. Það minnisblað er komið. Það kann að vera að minnisblaðið dugi okkur í nefndinni ekki endilega og ég tek undir það með hv. þingmanni. En það er alveg ljóst að þegar við víkjum frá lögunum og skilyrðin koma bara fram í fjáraukalagafrumvarpinu og sérstökum samningi verðum við einfaldlega að tryggja að ríkisábyrgðalögin og allt það aðhald og sá agi sem í þeim felst komi þá fram í því skjali sem við erum að fara að vinna með. Það er mín afstaða.