150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og margoft hefur komið fram er þetta risamál. Það er vandmeðfarið. En eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, formanns fjárlaganefndar, bind ég vonir við það — ég er ekki að segja að það sé einhver nýlunda af því að hér situr hv. þingmaður iðulega yfir mikilvægum umræðum, punktar hjá sér athugasemdir okkar og ég vil meina að mál hafi einmitt batnað vegna slíkra vinnubragða. Ég ætla ekki að vera í einhverju skjalli, en þetta skiptir máli upp á þá öryggistilfinningu sem maður fær, og mér finnst hv. þingmaður vinna þetta að því leyti öðruvísi en t.d. ríkisstjórnin, þar sem hann situr hér inni og hlustar og er greinilega að draga saman það sem sagt er, vonandi eftir bestu getu, til að ná að svara þeim áhyggjum sem ég og fleiri í stjórnarandstöðunni höfum. Ég efast ekki um að hægt verði að fá svör við mörgum af þeim spurningum. Síðan er það ákveðin pólitísk sýn hvort menn vilja standa fyrir ríkisábyrgð o.s.frv. En ég vil undirstrika að það skiptir máli að þetta fyrirtæki, og það sem það stendur fyrir, að halda leiðunum til og frá landinu opnum og greiðum, verði tilbúið þegar við förum af stað í næstu sókn í ferðaþjónustunni. Þá skiptir máli að hér sé til staðar flugfélag sem getur það. En það mun nefndin að sjálfsögðu fara yfir og skoða og við munum þá taka afstöðu til þess þegar þau svör hafa fengist.

Ég vil spyrja hv. formann hversu mikinn tíma nefndin þarf til að fara yfir málið.