150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:16]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég hafði áhyggjur af því eitt augnablik að ég yrði krafinn svara um þau fjölmörgu álitamál sem komið hafa fram í umræðum í dag, vegna þess að ég vildi svo sannarlega hafa svör við þeim. Ég kann að hafa skoðun á þeim nokkrum en mér finnst umræðan hafa dregið það fram að þetta verði ekki í einhverjum flokkspólitískum hjólförum þótt vissulega hefði einhvern tímann verið talað um að pólitísk prinsipp myndu stýra ferðinni. En það er svo sannarlega ekki þannig, ég held að kringumstæðurnar geri það að verkum að svo er ekki. Þessi vika sem við gefum okkur — við hefðum þurft vikuna til að gaumgæfa bara þetta eina mál, held ég. En við höfum nú reynt ýmislegt hér og það er væntanlega maraþondagur, nefndadagur á mánudaginn. Við reynum að nýta hann mjög vel. Við gáfum umsagnarfrest til mánudags og svo reynum við að fá aðila eftir því sem umsagnirnar berast, þá sem eru tilbúnir að koma. Og svo erum við samhliða því að fjalla um ríkisfjármálastefnu þannig að við þurfum að vinna þetta þétt og vel. Ég sé fyrir mér að við reynum að klára að fá umsagnaraðilana á mánudag, þriðjudag. Svo þarf þingið að fá sinn tíma til að melta þær upplýsingar sem fara þar í gegn. Þannig að mér finnst vika vera tæpur tími, ef ég á að segja alveg eins og er, en við verðum að sjá hvernig dagarnir, helgin og svo mánudagur og þriðjudagur vinnast. Nefndadagar eiga það til að vera mjög drjúgir þegar nefndirnar fá bara daginn til að vinna.