150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta svar. Ég geri mér grein fyrir erfiðleikunum varðandi það að afgreiða málið á svona skömmum tíma. Auðvitað viljum við fá meiri umræðu um það og ég geri mér líka grein fyrir því að þingmaðurinn er í meiri hluta og stjórnarflokkarnir allir, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn, hafa samþykkt það. En ég sagði það í ræðu minni að við yrðum að geta útskýrt af hverju ríkisstjórnin fer þessa leið, hvað sem við ákveðum síðan að gera. Við þurfum að geta sagt fólki að forsendur séu tilteknar og að undirbúningurinn hafi verið með þeim hætti að ríkisstjórnin gat farið þá leið, af því að það skiptir máli að fólk skilji og skynji. Þá eru meiri líkur á samstöðu.

Eitt enn. Ég er ekki að krefjast svara, en hér hefur mikið verið talað um einkaaðila, að lífeyrissjóðirnir, sem eiga meiri hluta í félaginu, komi frjálsir að borðinu. En þeir er ekki alveg frjálsir, þeir eru í höftum þannig að það er ekki um auðugan garð að gresja fyrir þá að fjárfesta. Þá velti ég bara fyrir mér hversu raunhæft mat það er á fyrirtækinu þegar svo stór hluthafahópur er knúinn að borðinu, af því að hann er í höftum og ástæðan fyrir höftunum er náttúrlega íslenska krónan.