150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég sit ekki í hv. fjárlaganefnd þannig að að einhverju leyti hefur hv. þingmaður meiri upplýsingar um þetta en ég. Ég skildi það á umræðunni hér áðan að komið hefði fram að fljótlega hefði hlutafjárleiðin verið afskrifuð þannig að það hefur beinlínis komið í ljós að sú leið hafi verið skoðuð. Ég er ekki með tæmandi lista yfir hvað annað hefur verið skoðað. Hins vegar vil ég segja það, forseti, að í besta heimi allra heima, þar sem við erum ekki í miðjum heimsfaraldri, og þar sem við búum við þær aðstæður að hver dagur getur skipt máli, þar sem verkefni stjórnvalda eru það ærin að þau duga — ja, mig langar að segja fjögur, fimm kjörtímabil en við klárum á örfáum mánuðum, þá gildir líka að vinna hratt. Þetta er ekki tíminn þar sem við setjumst niður með excel-skjölin okkar og skoðum allt sem okkur dettur í hug að skoða þannig að við eyðum í það öllum þeim tíma sem við teljum okkur þurfa, af því að það er alltaf hægt að finna einhverja aðra leið sem þarf líka að skoða. Í krísustjórnun þarf að vinna hratt. Það þarf að leggja það fljótt niður fyrir sér hverjir valkostirnir eru. Það þarf að skoða það fljótlega, finna bestu leiðina, eins og við gerum hér, og síðan þarf að hafa kjark til að fara þá leið.