150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur verið athyglisverð og það er rétt að geta þess að þetta mál rekur hingað inn af sömu ástæðu og mörg önnur mál sem tengjast faraldrinum sem nú geisar, þ.e. vegna ákvörðunarfælni ríkisstjórnarinnar og vegna þeirrar áráttu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að útvista ákvörðunum eitthvert annað. Þetta kom berlega fram áðan, t.d. í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppé í andsvari þar sem hann minntist á það að ríkisstjórnin hefði valið leið fimm af níu sem sóttvarnalæknir hefði lagt upp. Það er ekki endilega sanngjarnt að leggja það á sóttvarnalækni eða einhvern annan embættismann að koma með niðursoðnar tillögur, klárar, og að stjórnmálamenn þurfi ekki að taka ákvarðanirnar. Aðalstarf stjórnmálamanna og aðalverkefni er að taka ákvarðanir. Þær eru svei mér ekki allar réttar, sumar eru rangar, en við sitjum uppi með það að þurfa að taka þessar ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim. Hvað gerist annars? Ef t.d. þessi breyting á landamærunum sem var gerð á fimmtudaginn í síðustu viku reynist algert klúður og í febrúar þegar sést að mörg hundruð fyrirtæki hafa lagt upp laupana og þúsundir manna hafa bæst á atvinnuleysisskrá hvað ætla menn að gera þá? Reka sóttvarnalækni?

Herra forseti. Mér finnst þetta mesti ljóðurinn á því sem ríkisstjórnin er að gera og við fáum annan skammt á eftir. Við fáum framlengingu til tveggja mánaða á úrræði sem var sett á í vor og því miður hefur þetta gengið svona. Ríkisstjórnin er svo ráðvillt og án stefnu að hún er að taka flikk flakk og heljarstökk úti um allt, vegna þess að það skortir markmið, markmiðasetningu, og það skortir skýra stefnu.

Nú ætla ég að segja eitt. Þannig er að þetta mál sem við erum að ræða, við erum að ræða tvö mál og þá einkanlega eitt, er um ríkisábyrgð til handa Icelandair. Það er miklu meiri þörf á þessari ríkisábyrgð í dag heldur en var fyrir tíu dögum síðan. Af hverju? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin lokaði landinu aftur á fimmtudaginn í síðustu viku. Og svo vill til að sá sem hér stendur var á leiðinni til landsins þennan fimmtudag. Ég skoðaði flugið sem við áttum að fara með til Íslands og á miðvikudegi var flugvélin sneisafull. Þegar við mættum um borð var hún setin að 40%. Þetta er bara eitt flug, herra forseti. Þarna voru 80 manns sem höfðu hætt við á síðustu stundu að ferðast til Íslands út af því að þar hafði allt í einu verið breytt um stefnu og landamærunum lokað á ný. Hvað með ferðaþjónustuna, sem sumir virðast líta á sem einhvern holdgerving LÍÚ í ferðamennsku og tala niður til, sem er reyndar atvinnuvegur sem hefur skapað okkur gríðarlegar tekjur undanfarin ár og um 25.000 manns starfa fyrir? Ætlum við bara að láta þetta allt saman leka niður vegna þess að við þorum ekki að taka ákvarðanir?

Það blasir við að ríkisstjórnin var ekki einhuga í síðustu viku um að loka landinu aftur. Það kemur t.d. fram í máli hæstv. ferðamálaráðherra að hún er ekki glöð með þá ákvörðun. Síðan langar mig að nefna tvö atriði í viðbót. Mér brá við í morgun þegar hæstv. forsætisráðherra sagði í andsvari í umræðum um það sem ríkisstjórnin vill gera að það væri til skoðunar að opna landið aftur í næstu viku. Ég verð að segja, herra forseti: Við hverja heldur ríkisstjórnin að hún sé að tala? Heldur ríkisstjórnin að það sé hægt að skrúfa frá og fyrir ferðamennsku á svona tíu daga fresti, eftir því hvernig landið liggur? Það er næsta víst að á tímabilinu frá því núna og þangað til í vor munu örfá ef nokkur erlend flugfélög fljúga til Íslands vegna þess að þau treysta ekki íslensku ríkisstjórninni og íslenskum stjórnvöldum. Sama á við ferðaskrifstofur, þær munu ekki selja ferðir til Íslands vegna þess að þær treysta ekki á ástandið hérna.

Förum aðeins yfir ástandið hér. Hæstv. ferðamálaráðherra sagði að það væri rétt að kanna hvernig Nýsjálendingar hefðu farið að. Ég hefði haldið að það væri nærtækara að sjá hvernig nágrannar okkar, Danir, hafa farið að. Í Danmörku er núna svipað smithlutfall í þessari svokallaðri annarri bylgju farsóttarinnar. Þeir eru með u.þ.b. jafn mörg smit miðað við höfðatölu og við. Danir hafa ekki loka landamærum sínum. Þeir hafa hins vegar alvörulandamæraeftirlit, bara svona gamaldags eins og var áður, þar sem þeir sem koma til Danmerkur eru spurðir — eins og Roy Rogers var spurður hjá Halla og Ladda — hvað þeir séu að gera hérna, hvert þeir séu að fara, í hvaða tilgangi, hvar þeir ætli að gista og hversu lengi og síðan er þeim hleypt í gegn. Mér finnst einboðið að það hafi verið skynsamlegt að taka upp skimun á landamærum, þ.e. eina skimun. Menn hafa talað um kostnaðinn af þessum skimunum versus kostnaðinn við eftirlit með þeim sem eru skimaðir og síðan hleypt inn í landið. Ég held að við ættum að vega þetta svolítið saman vegna þess að með því að skima einu sinni kemur í ljós hvort einhver er með undirliggjandi smit eður ei, ef hann er með smit þá hleypum við honum inn í landið með því skilyrði að hann láti vita hvar hann ætlar að vera. Ef hann gefur ekki réttar upplýsingar og það þarf að elta hann uppi er hægur vandi að vísa slíkum einstaklingi frá.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í morgun að búið væri að skipa starfshóp til þess að kanna hvaða áhrif t.d. lokun landamæra eins og í síðustu viku hefur á efnahagslífið o.s.frv. Mér datt bara í hug þegar ég heyrði þetta, og ég ætlaði fyrst ekki að trúa því: Myndu menn skera niður þorskstofninn, eða veiðar úr honum, um 20% og skipa síðan nefnd til að tékka á því hvaða hagræn áhrif það hefði? Þetta er algerlega út í hött, herra forseti, og aðeins dæmi, því miður, um að ríkisstjórnin er ákvörðunarfælin og hefur ekki skýra stefnu til að vinna eftir. Hún sér því miður ekki endamarkið en það er akkúrat það sem okkur vantar núna. Við þurfum að sjá endamarkið og við þurfum að byrja á því núna og ættum að vera byrjuð á því, eins og ég skrifaði nokkrar greinar um í vor. Við þurfum að byrja nú þegar á því að byggja upp það þjóðfélag sem við viljum sjá þegar þessari sótt linnir, ekki þegar hún er dottin niður heldur núna, til að við séum tilbúin þegar hún dettur niður. En skýra stefnu vantar og það er mjög sárt. Svona er þetta því miður.

Þá kemur að því sem hér hefur verið sagt um verkefni dagsins, hvort það eigi að veita Icelandair ríkisábyrgð. Þingmenn sem töluðu á undan mér töluðu annars vegar um tilfinningar og hins vegar tilfinningaleysi. Ég hallast að því, eins og alltaf þegar hér eru álitamál á ferðinni, að taka tilfinningar út fyrir sviga vegna þess að þær eigi ekki heima í ákvörðunartöku. Ákvörðunartakan þarf að vera skýr og á rökum reist en ekki á tilfinningum. Þannig að hvað blasir við? Jú, það sem blasir við er að þetta fyrirtæki, sem við erum að velta fyrir okkur hvort við eigum að styrkja eður ei, er með um 4.700 manns í vinnu, þeim hefur kannski fækkað aðeins upp á síðkastið, og það verður fyrirsjáanlega, ef hringlandahátturinn með landamærin heldur áfram, eina flugfélagið sem flýgur hingað í þó nokkurn tíma. Menn hafa hins vegar haft uppi orð um að það sé skortur á samkeppni. Þangað til núna hefur ekki verið skortur á samkeppni í flugsamgöngum til Íslands. Í fyrra held ég að 60 flugfélög hafi flogið hingað yfir sumartímann og allnokkur yfir vetrartímann, þannig að þar skortir ekki. Það sem við þurfum líka að horfa á er aðstaða þeirra flugfélaga sem hingað fljúga. Þar á meðal eru t.d. Lufthansa en þýska ríkið gerðist 20% eigandi að því félagi mjög nýlega. Þar á meðal er SAS sem nýtur ríkisstyrkja eftir að veiran fór að láta á sér kræla. Það er því í sjálfu sér ekki spurning um það hvort Icelandair sé stærsta flugfélagið sem hefur höfuðstöðvar á Íslandi heldur þarf að horfa á í hvaða samkeppni félagið er, við hverja og hvaða kjör þeir fá sem eru að keppa við það.

Ég sagði áðan að menn litu svo á að það væri verið að dekra við eina atvinnugrein, sem ferðamennskan væri, og menn hafa talað eins og ferðamennskan sé einhver óseðjandi ófreskja sem gengur um fyrir hvers manns dyr og grenjar á peninga og slíkt. Svo er ekki. Við þurfum að horfa á það að ef við bregðumst ekki við þessu með einhverjum hætti þá verða fjöldagjaldþrot í greininni. Það verður fyrst þungt fyrir fæti þegar þarf á einhverjum tímapunkti að endurreisa fyrirtæki úr gjaldþrotum úti um allt land vegna þess að við höfum ekki gáð að okkur. Það liggur náttúrlega ekki fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að hafa vit fyrir ríkisstjórninni því að hún hlustar ekki á okkur, þó að við höfum reynt að koma fram með ýmsar ábendingar, mjög góðar, og góðar tillögur. Nota bene hefur enginn stjórnarandstöðuflokkur á Íslandi núna, alla vega ekki svo ég muni eftir á þessu þingi, þvælst fyrir einu einasta máli ríkisstjórnarinnar sem varðar baráttuna gegn Covid heldur hefur stjórnarandstaðan lagt sig í líma við það að taka mál sem eru erfið og þung og flókin, eins og þetta mál, og afgreiða þau á mjög skömmum tíma. Ég vona sannarlega að sú afgreiðsla, þessi hraða afgreiðsla sem hér hefur átt sér stað í málum hverju á fætur öðru, verði okkur ekki til tjóns. Auðvitað er sú hætta fyrir hendi. En það er kannski líka vegna þess að mál sem hafa komið hingað inn og koma ítrekað inn gera það af því að þau voru vanreifuð í fyrstu, eins og ríkisstjórninni var bent á þegar þau komu fyrst fram en ríkisstjórnin hlustar því miður ekki.

En að því máli sem við erum að ræða, um hvort veita skuli Icelandair ríkisábyrgð. Ég verð að taka undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé þegar hann sagði að þetta væri væntanlega útlátaminnsta leiðin til að tryggja að fyrirtækið starfaði áfram, þ.e. ef illa fer er ríkið ekki múlbundið inni með hlutafé eða miklar fjárskuldbindingar og væntanlega verður þetta liður í því að félaginu takist að afla sér nægs hlutafjár til að komast í gegnum þennan skafl. Ég held að það yrði mjög þungt fyrir okkur ef kjölfestufyrirtæki eins og þetta, með alla þessa starfsmenn, kæmist ekki óskaddað eða sem minnst skaddað í gegnum þetta ástand, sem við trúum öll og vonum og vitum að verður tímabundið. En meðan á því stendur þurfum við náttúrlega að taka þær ákvarðanir sem duga, sjá endamarkið og hafa skýra stefnu og skýra sýn á það hvað við viljum gera. Þar sem ríkisstjórnin hefur það ekki þá er ég aftur með þetta eina ráð til ríkisstjórnarinnar, sem ég hef borið fram nokkrum sinnum úr þessum ræðustól, að það gæti verið einnar messu virði fyrir ríkisstjórnina að kalla til fyrr í ferlinu fulltrúa stjórnarandstöðunnar til að fara yfir mál sem ríkisstjórnin vill leggja fram, betur sjá augu en auga. Það eru allir reiðubúnir að taka á og með ríkisstjórninni og veita lið. Það eina sem þarf að gera er að ríkisstjórnin láti svo lítið að leita eftir því.