150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[19:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi. Ég er ekki sá þingmaður sem hæstv. ráðherra nefndi sem þykist vita allt undir sólinni en veit þó það, og tek undir með hæstv. ráðherra, að líkast til mun atvinnuleysi aukast hér á landi á komandi vikum og mánuðum. Framtíðin er óráðin að einhverju leyti en þó ljóst að það verður ekki allt orðið eins og það var eftir tvo eða þrjá mánuði. Það eitt vitum við.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra um leið og ég fagna lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta um þrjá mánuði, hvort honum sé kunnugt um að í ágústmánuði fengu 12.000 einstaklingar, íbúar þessa lands, grunnatvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun sem eru eftir skatt 242.000 kr. Er hæstv. ráðherra tilbúinn að snúast á sveif með okkur í Samfylkingunni sem höfum útbúið frumvarp og lagt það fram í þinginu um að hækka grunnatvinnuleysisbætur þannig að þær verði nær lægstu launum í landinu til þess að lágmarka það mikla tjón sem fyrirséð er að verði hjá fjölda heimila og fjölskyldna hér á landi? Er hann tilbúinn til að snúast á sveif með okkur í Samfylkingunni að komast nær lægstu launum sem eru 335.000 kr.?

Ég mun koma með fleiri spurningar í seinna andsvari.