150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[11:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og um frekari aðgerðir á vinnumarkaði. Því miður verður að segjast alveg eins og er að á frumvarpinu eru margir gallar. Því miður, þó að margt sé gott í því, er erfitt að styðja það. Stór hópur fólks lendir fyrir utan í þessu máli.

Stjórnvöld gripu til þess strax við upphaf faraldursins að bjóða upp á hlutabótaleiðina. Sú aðgerð nýttist mörgum vel og kom í veg fyrir algjört tekjufall hjá fjölda heimila og fyrirtækja í landinu. Leiðin var þó ekki gallalaus eins og margoft hefur verið bent á. Hlutabætur eru úrræði sem gagnast einkum þeim sem starfa sem launþegar. Það þýðir að fjöldi fólks sem hefur orðið fyrir gríðarlegum tekjumissi getur ekki nýtt sér hlutabótaúrræðið. Það eru stúdentar, foreldra langveikra barna, listafólk, leigubílstjórar, sjálfstætt starfandi verktakar og fleiri. Þessir hópar þjóðfélagsins hafa ítrekað vakið athygli ríkisstjórnarinnar á vanda sínum en við litlar undirtektir. Því kemur það ekki á óvart að enn á ný skuli ríkisstjórnin neita að grípa til aðgerða til að taka utan um þann hóp.

Listafólk starfar gjarnan með óhefðbundnu sniði. Það er jú eðli listarinnar að í kringum sköpunina þarf að ríkja ákveðið frelsi. Tökum sem dæmi tónlistarfólk, það fær ekki tekjur fyrir að semja tónlistina, þó að mikil vinna fari í það, og í raun litlar sem engar tekjur fyrir spilun, hvort sem það er í útvarpi eða í gegnum streymisveitur. Það er ekki fyrr en tónlistin er flutt á tónleikum sem tekjurnar fara að skila sér. Þar sem ástandið kemur í veg fyrir að þessir tekjuliðir þeirra skili sér þá verður þessi hópur samfélagsins fyrir gífurlegum tekjumissi.

Sömu rök eiga einnig við um annað listafólk. Sviðslistafólk reiðir sig á sýningar sem lúta í dag ýmsum takmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana. Málarar, myndhöggvarar og gjörningalistamenn reiða sig á kynningar. Allt verður þetta fólk fyrir tekjumissi vegna ástandsins. Þá er bransinn mjög vertíðabundinn og yfirleitt ekki miklu meira um tækifæri á sumrin. Vegna faraldursins reyndist þó nauðsynlegt að aflýsa fjölda viðburða í sumar. Það hefur auðvitað einnig mikil áhrif á tekjur listafólks að ferðamönnum hefur fækkað verulega.

Vegna þess hve óreglulegar tekjur listamanna eru þá standa þeir misjafnlega vel þegar kemur að umsóknum um atvinnuleysisbætur. Margir hafa kannski verið mánuðum saman tekjulausir vegna væntinga um tekjuöflun á viðburðum á komandi misserum. Vegna þess hafa þeir ekki greitt tryggingagjald reglulega og eiga mögulega engan bótarétt. Þá hafa listamenn og aðrir sjálfstætt starfandi verktakar ítrekað kallað eftir endurskoðun á reikningsgrundvelli atvinnuleysistrygginga þar sem kerfið gerir kröfu um að fólk geti sýnt fram á talsvert hærri tekjur en margir hafa lifað á. Fólk á jú erfitt uppdráttar í listinni og margir þurfa að lifa mörg mögur ár áður en þeir sjá til sólar. Listamenn skrimta gjarnan í venjulegu árferði og því er ekki á það bætandi þegar tekjur þeirra þorna algerlega upp. Engu að síður koma þeir að lokuðum dyrum þegar þeir leita aðstoðar stjórnvalda.

Þá hafa listamenn átt erfitt með að komast í gegnum þvöguna sem myndast hefur hjá Vinnumálastofnun. Umsóknir þeirra taka gjarnan lengri tíma í afgreiðslu en umsóknir launafólks. Margir hafa þurft að bíða mánuðum saman eftir úrlausn sinna mála. Á meðan mega þeir lepja dauðann úr skel og lifa í algjörri óvissu um framtíðina. Þá þurfa þeir sem vinna blandaða vinnu, þ.e. bæði sjálfstætt og sem launþegar í hlutastörfum, að velja á milli þess að sækja um réttindi sem sjálfstætt starfandi eða launþegar. Þá geta þeir gjarnan ekki sýnt fram á meiri tekjur en svo að þeir eigi rétt á strípuðum bótum enda ekki litið til nema helmings tekna þeirra. Þrátt fyrir allt er horft fram hjá þeim enn á ný. Meiri hlutinn viðurkennir jú að vandi sé í kerfinu og kallar eftir því að vinnu við endurskoðun verði flýtt. Það er bara ekki boðlegt að kasta boltanum til ráðuneytisins aftur. Listamenn þurfa úrlausn sinna mála strax. Við eigum að tryggja þeim aðstoð og afgreiðslu hér og nú.

Þessi orð gilda líka um marga aðra, t.d. hefði verið mjög auðvelt að setja inn í frumvarpið eitthvað fyrir öryrkja. Því miður er þar ekkert inni. Hver er staðan hjá þeim hópi sem þarf að lifa á 220.000 kr. á mánuði fyrir utan það að gengið, matvara og allt hefur hækkað? Síðan er enn þá alvarlegra að ekki er hlaupið að því að leita eftir aðstoð hjálparsamtaka vegna þess að þar hefur umsóknum fjölgað um 40% og allt upp í 200%. Það segir okkur að það kreppir að. Það kreppir að hjá stórum hópi fólks. Sá stóri hópur fólks sem er veikur á ekki að fá neitt.

Hvernig er staðan hjá eldri borgurum? Góð hjá sumum en virkilega slæm hjá öðrum. Og hvað á að gera fyrir eldri borgara í þessu? Ekkert, ekki frekar en vanalega. Þeir eru ekki með vegna þess að — eins og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, fyrir ekki svo löngu síðan — þeir hafa það svo rosalega gott. Greiðslur til almannatrygginga á ákveðnum árafjölda hafa verið tvöfaldaðar úr 40 milljörðum í 80 milljarða. Það á að sýna að góðærið sé alveg bullandi hjá eldri borgurum og þeim sem eru í almannatryggingakerfinu en ráðherra tekur ekki inn í alls konar breytur eins og skerðingarnar sem höfðu á sama tíma hækkað úr 30 milljörðum í 60 milljarða og hækka enn. Hann tekur ekki inn í að þessi hópur hefur eingöngu fengið hækkun samkvæmt vísitölu neysluverðs en ekki launaskriði. Hann tekur ekki inn í að þessi hópur var skilinn eftir eftir hrunið og fékk ekki kjaragliðnun leiðrétta eins og allir aðrir afturvirkt og hefur ekki fengið launaþróunina sína fram á við. Ráðherra tekur ekki heldur inn í það hvernig hann hefur hækkað skattbyrðina á þennan hóp, breiðu bökin. Hann tekur ekki inn í dæmið að skattbyrði hefur hækkað gífurlega því að persónuafslætti hefur verið haldið niðri. Fátækt eykst hröðum skrefum og fleiri og fleiri lenda í sárafátækt. En hvað gerir þessi ríkisstjórn? Sér hún til þess að allir sitji við sama borð? Nei, langt því frá. Hún ýtir vandanum á undan sér og segjast ætla að gera eitthvað fyrir þennan hóp seinna og kannski dusta rykið af gömlum loforðum þegar kemur að kosningum.

Síðan er einn hópur sem er í gífurlegum vanda, foreldrar langveikra barna. Það er ömurlegt að horfa upp á það í nefndarálitinu hvernig á að afgreiða þann hóp. Þar segir, með leyfi forseta, orðrétt:

„Með þeirri breytingu var heimilt að greiða framfærendum barna, sem voru með gilt umönnunarmat á tilgreindu tímabili, eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum fyrir einn mánuð vegna aukinnar umönnunar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, það er ósköp einfalt. Þetta þýðir að framfærendur langveikra barna með gilt umönnunarmat á tímabilinu 16. mars til 4. apríl gátu sótt um viðbótargreiðslu vegna Covid-19. Um er að ræða eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar barna sem skapast hefur vegna Covid-19 faraldursins. Upphæð eingreiðslunnar er að hámarki 48.108 kr. Þvílík ofrausn. Þessi smágreiðsla, 48.108 kr., er ekki inni í þessu í dag. En það er líka alvarlegt hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá þennan smánaraur. Við erum að tala um fólk sem er með langveik börn og er að reyna að vinna líka. Skilyrðið kemur skýrt fram hér orðrétt á vef Tryggingastofnunar ríkisins, með leyfi forseta:

„Skilyrði fyrir greiðslum er að eftirfarandi aðstæður hafi skapast á tímabilinu 16. mars til 4. maí:

Þjónusta, t.d. skóli eða dagvistun hafi legið niðri.

Barn hafi ekki getað sótt þjónustu vegna ástandsins.

Undirliggjandi sjúkdómar barns hafi valdið því að það þurfti að vera heima (vandi skilgreindur sem áhættuþáttur af embætti landlæknis fyrir alvarlegri sýkingu vegna COVID-19).

Jafnframt er skilyrði að þessar aðstæður hafi varað í a.m.k. 15 virka daga á framangreindu tímabili.“

15 dagar án tekna. 48.108 kr. að hámarki. Maður hefur heyrt tölurnar 16.000–17.000, upp í 30.000. Við höfum líka fengið að heyra af fólki með langveik börn sem er hreinlega að missa vinnuna. Það segir okkur líka þá sögu að ekki er verið að fara eftir stjórnarskránni, að allir séu jafnir fyrir lögum. Hvernig í ósköpunum getur ríkisstjórnin leyft sér að segja: Þú færð og þú færð, en ekki þú og ekki þú? Það er enginn rökstuðningur fyrir því. Þetta er bara ákvörðun ríkisstjórnarinnar að bjarga ákveðnum hópum og skilja hina eftir. Það er eiginlega hreinlega ömurlegt til þess að hugsa að við skulum, virðulegur forseti, vera í svona stöðu eins og ég hef hér fjallað um.

Það er margt annað að í þessu frumvarpi, t.d. með hlutabótaleiðina sem átti að framlengja í tvo mánuði en sem betur fer var snúið við og hún framlengd um fjóra mánuði, til áramóta, en hefði átt að vera, ef eðlilegt væri, framlengd til sex mánaða og síðan endurskoðuð þegar við kæmum saman til þings 1. október, vegna þess að það hefur ekki reynt á það hvort hún virkar vel. Ég tel að hún virki vel ef gefinn er nógu langur fyrirvari. Við vitum af því og fengum upplýsingar um það að sum lönd hafa lengt slíka hlutabótaleið upp í 18 mánuði. Þess vegna er spurningin: Hvers vegna í ósköpunum gerir þessi ríkisstjórn hlutina svona? Hvernig í ósköpunum stendur á því þegar maður sér tölfræðina um það hvað hefur verið áætlað í málaflokkinn og hvað hefur þurft að borga að í flestum tilfellum er himinn og haf þar á milli? Í sumum tilfellum hefur bara brotabrot farið út, bara 5%–10% af þeirri upphæð sem áætlað var í þetta. Það segir okkur að það er eitthvað að í kerfinu. Ég fer að halda að hreinlega sé verið að plata í gegnum þetta kerfi. Almenningi og okkur öllum er sagt að þetta muni kosta gífurlegan pening og það er reiknað út en svo gerir það það ekki. Það segir okkur að það er borð fyrir báru. Það eru til peningar til að sjá til þess fyrir stúdenta að hámark eininga fari ekki úr 10 einingum í 12, eins og er í frumvarpinu, heldur í 22 einingar, eins og þeir báðu um. Það er mjög undarlegt að bjóða stúdentum að koma að samráði og samtali en hlusta ekki á eitt einasta orð. Það kom skýrt fram. Ekki ein einasta tillaga frá þeim kom hér inn. Samt vinna 70–80% af stúdentum með skóla og ef þeir vinna með skóla þá borga þeir inn í kerfið og ef þeir borga inn í kerfið þá eiga þeir rétt á því fá út úr kerfinu. Nei, þetta var allt tekið. Og eins og kemur fram, af hverju er ekki verið að hjálpa listafólki? Af hverju er ekki verið að hjálpa sjálfstætt starfandi verktökum?

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er ákveðinn hópur sem hefur beðið hjá Vinnumálastofnun allt upp í tíu eða ellefu vikur. Að vera launalaus ein mánaðamót er slæmt. Ef fólk er launalaust tvenn mánaðamót og þarf að borga leigu eða annan húsnæðiskostnað þá kemst það í vandræði. En að vera launalaus í fimm eða sex mánuði er skelfilegt. En það er ákveðinn hópur líka sem þekkir það að vera launalaus í heilt ár. Ég hef séð bréf, fengið bréf inn um lúguna hjá mér, tilkynningu um að bætur almannatrygginga, frá Tryggingastofnun ríkisins, verði 0 kr. í heilt ár. Bara 0 kr. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég fékk eingreiðslu frá lífeyrissjóði, eingreiðslu frá lífeyrissjóði sem reddaði mér til að borga upp uppsafnaðan halla. Þannig að ég átti ekkert eftir. En þá þurfti ég bara að herða sultarólina og vera launalaus í heilt ár. Þessu hefur fólk lent í og þetta er ömurlegt og á ekki að eiga sér stað í okkar þjóðfélagi, svona ljóta hluti á ekki að gera. Þetta er bara ljótt. Miðað við þær upphæðir og allt sem er búið að segja að verði notað í þessar aðgerðir þá er það eiginlega gjörsamlega óskiljanlegt með öllu að þeir ætli sér að hunsa þennan stóra hóp og ætli að reyna að keyra þetta svona í gegn. En það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar og er á hennar ábyrgð. Ég tek ekki þátt í því.