150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148, um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Eins og gefur að skilja var allur tími til undirbúnings og vinnu við málið knappur en það vissum við öll þegar við samþykktum þessa tilhögun á þeirri viku sem þingstubburinn svokallaður er. Nefndin gerði það sem hægt var til að vinna tíma en tíminn til umsagna var að sama skapi knappur, fimm dagar líkt og fjármálaráð hafði til að klára álit sitt, sem er alla jafna mjög mikilvægt grundvallarplagg í umræðum um ríkisfjármálastefnu og fjármálaáætlun. Engu að síður bárust mjög góðar og gagnlegar umsagnir við málið og nefndin bauð öllum þeim aðilum á sinn fund og nefndadagarnir nýttust mjög vel. Ég vil um leið þakka nefndinni og umsagnaraðilum fyrir að bregðast vel við, þakka fyrir umburðarlyndið og langar fundarsetur, og um leið fyrir nauðsynlegt samtal.

Það leikur enginn vafi á tilefni þessarar endurskoðunar á fjármálastefnu sem liggur fyrir þinginu og við fjöllum um nú. Alþingi samþykkti í júní sl. frumvarp um frestun á framlagningu endurskoðaðrar fjármálastefnu og fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps sem við ræðum eftir fáeinar vikur. Í 10. gr. laga um opinber fjármál er fjallað um forsendur og skilyrði endurskoðunar á fjármálastefnu og það má segja í stuttu máli og staðfest af fjármálaráði að allar forsendur eru til og lagalegur áskilnaður er uppfylltur. Í raun er ekki hægt að bregðast við með hefðbundnum tiltækum ráðum á gjalda- og tekjuhlið, aukinheldur er það beinlínis talið óráðlegt að hið opinbera magni upp óumflýjanleg samdráttaráhrif með því annaðhvort að auka skattlagningu eða draga úr umsvifum til að uppfylla markmið um afkomu og skuldastöðu gildandi fjármálastefnu.

Í 4. gr. laga um opinber fjármál kemur fram að markmið stefnunnar skuli sett fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, VLF, og að stefnan skuli vera í samræmi við grunngildin um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi sem skilgreind eru í 6. gr. laganna.

Tillagan sjálf er sett fram í einni töflu og þar má sjá helstu breytingar sem lagðar eru til á heildarafkomu, skuldum og samhengið við óvissusvigrúm; fyrirkomulag sem tekið var upp við endurskoðun stefnunnar fyrir rétt um ári síðan. Sökum efnahagslegrar óvissu er óvissusvigrúmið eðli máls meira nú en ákveðið var þá, en í þessari endurskoðuðu tillögu er miðað við að það geti orðið allt að 2% af VLF á árinu og 3% á ári næstu tvö árin á eftir. Í stað jafnvægis, sem að var stefnt í gildandi stefnu, er nú gert ráð fyrir að hallinn geti orðið allt að 14,5% af VLF á þessu ári og 13% á því næsta. Samsvarandi sjáum við að gert er ráð fyrir breytingum á skuldahlutfalli því að við blasir að fjármagna þurfi þær aðgerðir og viðbrögð sem nauðsynleg eru með lántöku.

Það þarf ekki að orðlengja að víkja þarf frá fjármálareglum, m.a. skuldareglunni, 30% markinu. Reiknað er með að hlutfallið geti orðið 45% á næsta ári og 64% árið 2022 en það er miðað við að allt óvissusvigrúm, sem er töluvert, verði nýtt. Lakari afkoma og hærri skuldsetning er ekki einskorðuð við ríkissjóð heldur kemur hún einnig fram í afkomu sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja.

Hlutfallslegar breytingar fjármálastefnu sem gerð er tillaga um koma fram í töflu á bls. 16 í greinargerð þingsályktunartillögunnar.

Nefndin hefur reiknað hlutföllin af VLF yfir í fjárhæðir til að hægt sé að glöggva sig á fjárhagslegu umfangi. Sem dæmi nemur óvissusvigrúmið uppsafnað samtals 247 milljörðum kr. ef það er nýtt að fullu öll árin en það er um fjórðungur af gildandi fjárlögum. Umfangið er því talsvert og speglar kannski þá óvissu sem við erum að kljást við. Ef það er nýtt að fullu öll árin gæti halli á heildarafkomu A-hluta hins opinbera numið 412 milljörðum kr. á þessu ári, 401 milljarði kr. á næsta ári og 343 milljörðum kr. árið 2022. Óvissusvigrúmið, það skal ítrekað, verður þó aðeins nýtt ef efnahagshorfur reynast lakari en gert er ráð fyrir í þjóðhagsspá.

Meiri hlutinn bendir á að hlutföll og fjárhæðir í stefnunni miðast við að geta rúmað dekkri sviðsmyndir en megingrunnsviðsmyndin sem byggist á þjóðhagsáætlun Hagstofunnar. Ef þjóðhagsspá gengur eftir kemur ekki til þess að óvissusvigrúmið verði nýtt og bæði afkoma með minni halla og skuldir hækka ekki eins mikið og hámarkið sem birtist í stefnunni.

Skuldaaukning ríkissjóðs við núverandi aðstæður miðar beinlínis að því að létta byrðar heimila og fyrirtækja vegna áfallsins. Rekstrarhalla ríkissjóðs er því varið í að auka viðnámsþrótt heimila og fyrirtækja sem eru í betri aðstöðu fyrir vikið. Þessi beiting ríkisfjármálastefnunnar er í samræmi við áherslur flestra annarra ríkja og ráðleggingar alþjóðastofnana.

Um efnahagshorfur, talandi um óvissuna, vil ég segja að okkur er nokkur vandi á höndum. Þá um leið verður gildi áætlana, sviðsmynda og greininga meiri. Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í júnímánuði er sú grundvallarspá sem býr að baki endurskoðaðri fjármálastefnu. Síðan þá hafa komið fram vísbendingar um sterkari einkaneyslu en talið var, sem endurspeglast í spánni auk uppfærðra upplýsinga um fyrirætlanir í opinberum fjármálum.

Hagþróun hérlendis er áþekk því sem gerist víða annars staðar, m.a. á Norðurlöndunum. Það er helst þegar maður ber þetta saman, og við gerum grein fyrir því nefndaráliti okkar, að mismunandi vægi ferðaþjónustu speglist í spánum þar sem ber í milli. Nefndin hefur jafnframt sett fram í töflu spár Hagstofunnar og Seðlabankans til samanburðar og dekkri sviðsmynd fjármálaráðuneytisins sem liggur til grundvallar útreikningum á óvissusvigrúmi. Ef dekkri sviðsmyndir raungerast reynir á óvissusvigrúmið og hugsanlega þarf að nýta það allt fyrir ríkissjóð. Í því tilfelli hefst efnahagsbatinn ekki að ráði fyrr en 2022.

Grunnsviðsmyndin miðast við að hallinn á ríkissjóði verði í kringum 10% af VLF á þessu ári. Hafa ber í huga að stærstan hluta hans má rekja til ákvarðana um efnahagslegar mótvægisaðgerðir og ákvörðunar um að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum að virka til fulls. Afkomuþróunin leiðir til verulegrar aukningar skulda og lánsfjárþarfar hins opinbera eins og tillögurnar bera með sér.

Það sem skiptir kannski mestu máli og meiri hlutinn vill leggja áherslu á eru markmiðin sem við horfum til í þeim tilgangi að koma okkur í gegnum þetta tímabil.

Í fyrsta lagi að draga ekki úr umfangi opinberrar þjónustu. Fjármálum hins opinbera verði markvisst beitt til að tryggja stöðugleika og skapa efnahagslega viðspyrnu. Áhersla verði lögð á framkvæmdir og tilfærslukerfin þrátt fyrir mikla tekjurýrnun ríkis og sveitarfélaga. Það mun reyna á samráð og samvinnu við sveitarfélögin við þetta verkefni og þegar í umfjöllun við fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp.

Í öðru lagi að grípa til margvíslegra mótvægisaðgerða eins og gert hefur verið. Vísa ég þá til að mynda til þeirra fjáraukalagafrumvarpa sem við unnum með á vormánuðum og fólu í sér fjölmargar mótvægisaðgerðir. Meginmarkmið aðgerðanna hefur verið að milda það tjón sem heimili og atvinnulífið standa frammi fyrir við núverandi aðstæður.

Í þriðja lagi er afar mikilvægt að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum ríkisfjármálanna að virka til fulls. Við verðum að passa upp á að fjármagna það.

Við þessar aðstæður, eins og endurskoðunin segir, er óhjákvæmilegt að taka lán og því er sú lykilspurning sem vaknar, með tilliti til grunngildis um sjálfbærni: Hvað er óhætt að hækka skuldahlutföll mikið áður en neikvæð áhrif þess fara að vega meira en góðu hófi gegnir, en það er ljóst að vikið er frá reglum og markmiðum núgildandi stefnu svo um munar? Fjölmörg atriði þarf að hafa í huga þegar kemur að því að svara þessari spurningu, m.a. sveiflur og möguleg önnur áföll í framtíðinni, skuldastýringu og endurfjármögnun því tengda, lánskjör og vaxtastig, viðbrögð matsfyrirtækja en kannski ekki síst agi og regluverk laganna.

Samkvæmt rannsóknum á meðal ríkja innan OECD og Evrópusambandsins gæti sjálfbær skuldastaða hins opinbera á Íslandi verið á bilinu 50–80% af VLF. Til lengri tíma litið er mikilvægt að frumjöfnuður hins opinbera verði jákvæður þannig að hægt sé að borga niður skuldir miðað við framtíðarmarkmið og tímamörk. Þetta hangir saman við hagvöxt en ég ítreka að tímaspönnin skiptir öllu máli í þessu þegar horft er til þess að leggja ekki of þungan klafa á komandi kynslóðir og búa svo í haginn að staða ríkissjóðs sé ávallt tilbúin til þess samhliða að jafna sveiflum, skapa stöðugleika, að vera í færum til að takast á við áföll eins og við nú stöndum frammi fyrir. Samhliða þarf auðvitað að treysta og halda áfram að byggja upp innviði samfélagsins og standa vörð um samneysluna.

Niðurstaða meiri hlutans er að miðað við flesta mælikvarða þá ræður hið opinbera á Íslandi við þær skuldbindingar sem staðið er frammi fyrir í núverandi efnahagsástandi og hagkerfið hefur fulla burði til þess að komast út úr þessari kreppu og standa þannig undir fjármagnskostnaði og um leið niðurgreiðslu skulda þegar fram í sækir. Grundvallaratriðið er hér að allar aðgerðir, varnir og stuðningur við fjárhag heimila og geta fyrirtækja til að viðhalda framleiðslutækjum stuðli að kröftugri viðspyrnu og að landsframleiðslan taki að vaxa kröftuglega á ný.

Eins og ég kom að, virðulegi forseti, þá hefur álit fjármálaráðs reynst grundvallarplagg við alla umfjöllun um ríkisfjármál, um fjármálaáætlun og fjármálastefnu og hlutverk fjármálaráðs er skrifað í lögin. Ég ætla aðeins að draga saman, og við gerum það í nefndaráliti meiri hlutans, helstu atriðin sem koma fram í áliti ráðsins og í því samtali sem bæði hv. fjárlaganefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd átti við ráðið. Það kemur skýrt fram að stærsta verkefni opinberra fjármála sé að kljást við atvinnuleysi og vinna gegn því að það verði langvinnt. Þá er bent á mikilvægi þess að opinberar fjárfestingar séu arðsamar. Í því samhengi er nefnt að ekki er að finna viðmið sem ákvarða í hvaða fjárfestingar í innviðum er ráðist og hvernig þeim er forgangsraðað innbyrðis.

Þetta höfum við margoft fjallað um áður og ráðið leggur áherslu á að sett verði gagnsæ markmið og að á hverjum tíma sé svigrúm til aðgerða til að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála og stuðla að stöðugleika efnahagslífsins.

Grunngildið í allri umfjöllun fjármálaráðs er gagnsæi og meiri hlutinn tekur undir það. Niðurstaða fjármálaráðs er sú að við núverandi aðstæður muni hið opinbera ráða við þær áætlanir um skuldastöðu sem kynntar eru í fjármálastefnunni. Ráðið bendir á að ekki er gefin mjög skýr mynd af aðhaldsstigi opinberra fjármála fari svo að efnahagsþróunin verði hagfelldari en gert er ráð fyrir í þeirri hagspá sem til grundvallar liggur. Það er auðvitað þetta grunngildi um varfærni og festu, en fjármálaráð bendir jafnframt á það, og það er þá kannski til að sýna því einhvern skilning, að aðhaldsstigið sé ekki mál málanna við þessar aðstæður, að í tilfellum sem þessum geti grunngildi eins og varfærni og festa stangast á. Óvissan er meiri en nokkru sinni fyrr og endurvarpast beint í stefnumörkunina og sést í stefnumiðunum. Fjármálaráð fjallaði nokkuð um þetta í áliti sínu.

Óvissusvigrúmið endurspeglar að einhverju leyti viðbrögð við fyrri ábendingum ráðsins þó að það leysi ekki allan vanda. Stefnumörkunin byggist á að hagþróunin verði það sem kallað hefur verið V-laga og áfallið því tímabundið og við förum hratt út úr því. Það má kannski segja að þróunin sé yfir í það að verða U-laga og á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar, í samtali við seðlabankastjóra, kom enn ein líkingin við þorratrogið fram. Ef hagþróunin verður í formi langvarandi efnahagssamdráttar verður erfitt að fylgja fjármálastefnunni óbreyttri.

Meiri hlutinn tekur undir fjölmargt af því sem fram kemur í umsögn ráðsins, og ég hef dregið margt af því saman hér, og ljóst er að stjórnvöld hafa brugðist jákvætt við margvíslegum fyrri ábendingum ráðsins. Fullyrða má að lög um opinber fjármál hafi sannað gildi sitt að því marki að markmið ríkisfjármálastefnu og peningastefnu, það kemur víða fram, vinna saman að því að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins. Það hefur m.a. komið fram í Peningamálum Seðlabankans.

Þó nokkrir umsagnaraðilar hafa bent á að í ljósi óvissunnar í efnahagsmálum þurfi að skoða hvort óvissusvigrúmið dugi til. Ég get dregið fram umsagnir Samtaka atvinnulífsins, Reykjavíkurborgar og samtöl við þá aðila um þetta. Það er mjög mikilvægt að fá slíkar ábendingar og þess vegna bendir meiri hlutinn á að umfjöllun um sviðsmyndir þurfi að vera mun ítarlegri til að rökstyðja umfang óvissusvigrúms. Í greinargerðinni er aðeins fjallað um eina dekkri sviðsmynd en, eins og fjármálaráð bendir á, mætti þar tilgreina hversu stór hluti verri afkomu stafar af minni tekjum, hversu stór hluti er vegna atvinnuleysis, þ.e. hvernig þetta leggst á gjalda- og tekjuhlið, og hvort og þá hvaða mótvægisaðgerðir séu fyrirhugaðar.

Lykilatriði er að óvissusvigrúmið þarf að vera vel rökstutt með sviðsmyndum og næmnigreiningum og geta mætt frávikum sem gjarnan eru og koma fram í hagspá. Bent hefur verið á að óvissusvigrúmið megi ekki vera of þröngt svo að svigrúm til aðgerða verði ekki of lítið og það má heldur ekki vera of vítt þannig að það verði marklaust. Þetta kom fram í nokkrum umsögnum og í áliti fjármálaráðs og meiri hlutinn tekur undir það, en um leið þurfum við að vanda okkur við að rökstyðja vel hvert óvissusvigrúmið þarf að vera.

Þannig kom fram að stefnan gæti leitt til ákveðinnar spennitreyju. Það hefur áður komið fram í áliti fjármálaráðs og þess vegna er brugðist við með þessu fyrirkomulagi en með því er átt við að svigrúm verði of lítið til að bregðast við þeim breytingum sem orðið geta á spám.

Óljóst er í greinargerð hvernig svigrúmið í ályktuninni er ákvarðað og þá sérstaklega þegar horft er til ársins 2020, þar sem engin sviðsmynd er dregin upp fyrir það ár. Óvissusvigrúmið í afkomu fyrir 2021 gefur tilefni til að ætla að búið sé til svigrúm fyrir frekari mótvægisaðgerðir en það kemur ekki skýrt fram í greinargerð með tillögunni.

Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að halda umtalsverðu óvissusvigrúmi í fjármálastefnu, sérstaklega á þessum tímum í ljósi óvissu um framvindu efnahagsmála en bendir jafnframt á að ekki liggur fyrir hvernig skipting á nýtingu svigrúmsins gæti orðið á milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta er mikilvægt og við komum til með að þurfa að takast á við það og vinna saman með sveitarfélögunum í þeim málum sem fram undan eru í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi. Nýting svigrúmsins er því háð ýmiss konar óvissu í tengslum við efnahagshorfur á næstu misserum. Áréttað er að óvissusvigrúmið á eingöngu að nýta ef efnahagsaðstæður reynast lakari en þjóðhagsspá miðar við.

Við erum því með í nefndaráliti sérstakan kafla um þetta samspil og samhengi óvissusvigrúms við afkomumarkmiðin og afkomuhlutföllin og svo skuldahlutföllin. Í grunnspá Hagstofunnar, segir í greinargerð, er gert ráð fyrir 4,9% hagvexti á næsta ári, að atvinnuleysi verði að meðaltali 6,7% og verðbólga 2,5% en í dekkri sviðsmyndinni er miðað við að önnur bylgja faraldursins komi og af þeim sökum fækki ferðamönnum um 80%, ansi dökk sviðsmynd. Þar með yrði hagvöxtur aðeins 0,6%, atvinnuleysi 8,3% og verðbólga 2,8%.

Ætla mætti að mun lægri hagvöxtur frá grunnspá, eða 4,3 prósentustiga lækkun, reyni verulega á svigrúm til viðbragða og því er mikilvægt að leggja eins nákvæmt mat eins og unnt er á það hvort 3% óvissusvigrúm dugi. Þar vegur þungt sú staðreynd að einkaneysla Íslendinga erlendis færist inn í landið og vinnur þannig gegn hefðbundinni lækkun eftirspurnar og þar með lækka tekjur af virðisaukaskatti ekki nálægt því eins mikið og ætla mætti miða við lægri hagvöxt.

Önnur atriði hafa hér líka áhrif, t.d. að ekki er talið að heildarlaun lækki í samræmi við minni hagvöxt og þar með lækka tryggingagjald og tekjuskattar minna en ella. Engu að síður gætu tekjur ríkisins lækkað um meira en 30 milljarða kr. ef dökka spáin raungerist.

Meiri hlutinn fer yfir þessa skiptingu í nefndarálitinu og metur það svo að þeir 90 milljarðar sem óvissusvigrúmið gefur tilefni til eigi að geta mætt því ef svo fer að dekkri sviðsmyndin raungerist. Það mat gerir ráð fyrir að nýta þurfi allt að helming óvissusvigrúmsins á næsta ári, eða 45 milljarða kr. en það sé þá borð fyrir báru að mæta því ef frávik verða frá dekkri sviðsmyndinni.

Ég kom inn á það fyrr í ræðu minni að það reyni meira á grunngildin en áður og fjármálaráð benti á að grunngildi um festu og varfærni eigi kannski síður við við núverandi aðstæður en gagnsæið verður þá þeim mun mikilvægara og algjört lykilgrunngildi. Í því felst að birta auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma og birta reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum.

Nú hafa stjórnvöld nýlega skipað starfshóp til að greina efnahagsleg áhrif sóttvarna sem mun vinna reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnamálum, með tilliti til ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. Meiri hlutinn telur það jákvætt og mjög nauðsynlegt skref til að stuðla að gegnsæi. Nauðsynlegt er að um leið verði hugað að því að gera skýra grein fyrir samspili aðgerða og hvaða efnahagslegu áhrif þær hafa, t.d. á hagvöxt og atvinnustig.

Meiri hlutinn bendir á að áhrif afkomunnar á skuldastöðuna mættu vera auðlesanlegri í stefnunni, en væntir þess að í fjármálaáætlun verði betur hægt að greina þá þætti.

Sviðsmyndagreiningu þarf að bæta frá því sem nú er og skýra betur forsendur, t.d. á bak við dekkri sviðsmyndina sem sett er fram í greinargerðinni. Þetta er hvatning til þeirra sem vinna málið hér, til stjórnvalda, til þingsins, um að bæta úr.

Við undirbúning þingsályktunartillögunnar hefur upplýsingastreymi Hagstofunnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins verið endurbætt frá því sem áður var. Nú er beitt þeim vinnubrögðum sem fjármálaráð hefur kallað „ítrun“, þ.e. að Hagstofan fær upplýsingar um áform í ríkisfjármálum, m.a. fjárfestingaráform, til þess að geta að hluta til endurbætt þjóðhagsspá. Með því móti eru nýjustu upplýsingar nýttar til að bæta áætlanagerðina.

Meiri hlutinn ítrekar fyrri afstöðu sína um endurbætur á gerð áætlana og bendir m.a. á gagnrýni sveitarfélaga í þeim efnum. Það mun reyna mjög á samstöðuna í þessu og við erum öll um borð í sama bátnum þegar að því kemur. Ég vil leggja áherslu á það, virðulegi forseti, að við umfjöllun um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp verði gott og mikið samráð þar á milli.

Ég ætla í lokin að draga fram þær ábendingar meiri hlutans sem koma fram í lok nefndarálitsins.

Í fyrsta lagi er bent á að allir umsagnaraðilar eru sammála því að allar forsendur gildandi fjármálastefnu eru algerlega brostnar. Lagaskylda er því til staðar fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram endurskoðaða fjármálastefnu á Alþingi. Í umsögn fjármálaráðs segir: „Við núverandi aðstæður telur fjármálaráð einsýnt að fullgilt tilefni sé til endurskoðunar gildandi fjármálastefnu, í samræmi við 10. gr. laga um opinber fjármál.“

Í öðru lagi er tekið undir sjónarmið sem fram hafa komið um að lög um opinber fjármál hafi sannað gildi sitt að því leyti að markmið ríkisfjármálastefnu og peningastefnu vinna mun betur saman en raunin var oft áður fyrr. Ég vil líka draga fram að við reynum að virða umrædda hringrás stefnumörkunar þó að við séum ítrekað að endurskoða stefnu og fresta fyrirtöku mála. Við virðum þá hringrás eins og kostur er og reynum að koma málum í þann farveg sem fyrst.

Í þriðja lagi er niðurstaða meiri hlutans að ríkissjóður og hið opinbera í heild ætti að ráða við þær skuldsetningar sem staðið er frammi fyrir í núverandi efnahagsástandi. Hagkerfið hefur burði til þess að komast út úr efnahagsástandinu og standa þannig undir fjármagnskostnaði og um leið niðurgreiðslu skulda. Í framtíðinni þurfa opinber fjármál að verða sjálfbær að nýju. Það er þetta grunngildi sem ég fór yfir hér áðan og við gerum sérstaklega skil í nefndarálitinu. En í umsögn fjármálaráðs, sem ég ætla að vísa í hér, segir að leitast eigi við að stuðla að jafnvægi og mæta þannig kröfunni um stöðugleika. Fjármálaráð telur jafnframt að framlögð þingsályktunartillaga til breytinga á gildandi fjármálastefnu stuðli að sjálfbærni opinberra fjármála.

Í fjórða lagi er jákvætt og nauðsynlegt að halda umtalsverðu óvissusvigrúmi í stefnunni, sérstaklega við núverandi óvissu í efnahagsmálum en meiri hlutinn hefur sannfæringu fyrir því, og ég vísaði í þá útreikninga sem við, nefndin, höfum bætt úr frá greinargerð, þar sem okkur fannst þetta skorta. Við setjum hér fram þessa skiptingu, og þetta kemur líka fram í áliti fjármálaráðs á bls. 7, að matið geri ráð fyrir að nýta þurfi allt að helmingi óvissusvigrúmsins á næsta ára eða 45 milljarða kr. og sundurliðast það þannig að afkoman gæti lækkað um 10 milljarða kr. vegna lægra nafnvirðis VLF, aðra 10 milljarða kr. vegna aukinna útgjalda, fyrst og fremst vegna atvinnuleysis, en á tekjuhlið munar mest um 15 milljarða kr. lækkun virðisaukaskatts. Tekjuskattar og tryggingagjöld lækka samtals um 10 milljarða kr. og eftir sem áður er þá svigrúm til að grípa frávik sem nemur allt að 45 milljörðum kr. Þannig er þetta reiknað út lið fyrir lið og liggur til grundvallar og hefði þurft að fylgja bæði í gögnum til hv. fjárlaganefndar og í greinargerð með málinu. Úr því var bætt og ég vil þakka nefndinni fyrir að vera einhuga um að kalla eftir þessum upplýsingum.

Í fimmta lagi þarf að skýra nákvæmlega forsendur fyrir útreikningum á útgjaldasvigrúmi með viðeigandi sviðsmyndum og næmnigreiningum og tengist það því sem ég fór yfir hér.

Í sjötta lagi er hvatt til þess að hraðað verði vinnu stjórnvalda við að endurbæta alla hagspárgerð.

Meiri hlutinn leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta álit meiri hlutans rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Páll Magnússon.