150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um fjármálastefnu 2018–2022. Við vitum að í ráðstöfun ríkisstjórnarinnar vegna Covid-málanna var reiknað rosalega skakkt. Þeir settu upp svartsýnisgleraugun, en þær rosalega háu upphæðir sem þetta átti allt að kosta stóðust ekki.

Nú spyr ég mig hvort eitthvað sé að marka þessa fjármálastefnu vegna þess að hún virðist taka breytingum með örstuttum fyrirvara af því að óvissan er mikil. Ég spyr: Settu þeir upp bjartsýnisgleraugun þar, vegna þess að í þeirri stefnu er reiknað með mjög lítilli verðbólgu? Verðbólgan er komin af stað. Síðustu tölur voru 3,2% og það stefnir jafnvel í 4%. Gengið er í frjálsu falli.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson, formaður nefndarinnar, talaði um heimilin og fyrirtækin. Gildir það sama um öll heimili? Verða öll heimili fyrir aðhaldi? Hvernig verður staða heimila þeirra sem verst eru staddir? Er einhver stefna um það, eða er kannski aðalstefnan sú að eldri borgarar, öryrkjar og aðrir eigi bara að herða sultarólina og taka við öllum hækkunum, bæði vegna verðbólgu og gengisáhrifa, án þess að nokkuð sé stefnt að því að efla þeirra hag?