150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stefna um þessa sjálfvirku sveiflujafnara. Þetta er stefna stjórnvalda um að gera það sem á að gera í efnahagslegri niðursveiflu, þ.e. óbreytt þjónustustig og réttindi, sem er bara jákvætt. En hvar er uppbyggingin í stefnunni? Hvaða áhrif eiga að vera af fögrum orðum um verðmæt störf, eins og það er orðað? Eru það t.d. störf í ferðaþjónustu? Ekki eru þau störf mjög verðmæt fyrir fólkið sem vinnur þau, enda eru þau almennt láglaunastörf. Er það stefna stjórnvalda um verðmæt störf að redda Icelandair með hlutabótaleið, uppsagnarleið og síðan ríkisábyrgð með milljörðum á milljarða ofan til þess að passa að láglaunastörfin haldist? Að hafa aftur og aftur gerðardóm um störf hjúkrunarfræðinga? Er það skilgreining ríkisstjórnarinnar á verðmætum störfum, ekki laun fólksins sem er að vinna heldur eitthvað annað? Mér finnst það undarlegt.

Fyrsti pakki ríkisstjórnarinnar var með markaðsátak upp á þrjá milljarða á meðan nýsköpun fékk þá tæpa tvo milljarða. Það var ekki fyrr en stjórnarandstaðan lagði áherslu á nýsköpun að ríkisstjórnin hreyfði sig eitthvað. Í þeim pakka var nýsköpun aukin um rétt rúman milljarð þannig að markaðsátakið varð þrír milljarðar og nýsköpunin þrír milljarðar. Það var jafn mikið en áherslan er samt frekar augljós í því. Það er hluti af vandamálinu sem ég sé við þessa stefnu, á meðan hún er tiltölulega augljós og gagnsæ varðandi sjálfvirka sveiflujafnara, um það sem á að gera í efnahagsniðursveiflu, þá er hún ekki gagnsæ hvað varðar önnur markmið ríkisstjórnarinnar um verðmæt störf og þau fögru orð sem þar fylgja. Hvaða áhrif eiga þau í alvörunni að hafa til þess að við hér á þingi getum fullvissað ykkur um að stefnan sé að skila þeim árangri sem stjórnvöld segja að hún eigi að skila?