150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hann kom víða við. Mig langar rétt að hlaupa á nokkrum atriðum. Ég veit ekki betur en að verið sé að setja meira fjármagn í grænmetisframleiðslu nú en nokkurn tímann áður. Þær hugmyndir sem verið er að vinna með eru af þeirri stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður á Íslandi og það er mikil nýsköpun og mikið og gott starf unnið í grænmetisframleiðslu og verður á næstu árum.

Kvikmyndaframleiðsla — í fjárauka þrjú, sem við afgreiddum hér í júní, bættum við einmitt 2,1 milljarði í kvikmyndagerð. Þessi ríkisstjórn hefur því verið að gera mjög stóra hluti sem snúa að kvikmyndagerð. Mér finnst ósanngirni ef verið er að gera lítið úr því fjármagni og þeirri áherslu sem hefur verið á að styrkja þá mikilvægu atvinnugrein sem mörg okkar hafa mikinn áhuga á að þróist og vaxi áfram á þann góða hátt sem verið hefur undanfarið. Við erum að sjá mikil og merk skref þar, jafnvel undanfarna sólarhringa, sem snúa t.d. að fjárfestingum erlendra aðila í íslenskri kvikmyndagerð og þáttagerð. Eitthvað er jákvætt að gerast þar.

Fjárfestingar af hálfu ríkisins — það er ótrúleg umræða sem hefur verið uppi um fyrri mál í dag og í gær og síðan aftur hér — hafa tvöfaldast á tíma þessarar ríkisstjórnar, úr u.þ.b. 46 milljörðum í 92 milljarða og síðan erum við að bæta enn frekar í með næstu ríkisfjármálaáætlun. Við höfum kynnt það fjárfestingarátak sem er að koma inn nú í haust fyrir árin 2021, 2022 og 2023. Það er mikið að gerast þar og því ósanngjarnt að tala um að lítið sé verið að gera þar. Það er verið að gera gríðarlega mikið vegna fjárfestinga ríkisins sem er náttúrlega löngu tímabært. Það er margt verið að gera.