150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi þingstubbur var ætlaður fyrir mikilvæg Covid-mál, það er ekkert flóknara en það. Nokkur ákveðin mál voru aukalega eins og fjármálastefna t.d. en annars var hann fyrir mikilvæg Covid-mál. Ég hefði haldið einmitt að atvinnumál lægju þar dálítið undir og strandveiðar fyrir fólk út um allt land eru tvímælalaust atvinnumál. Það má til að byrja með koma og tala við flokkana og segja: Þetta hérna er atvinnumál sem við erum að fjalla um og á við september. Þar af leiðandi er það tímalega mikilvægt. Það væri ágætt að spyrja bara að því en það var ekki mikið um spurningar og þegar þær komu þá hlupu stjórnarþingmenn mjög fljótlega frá þeim. Við skulum hafa það algerlega á hreinu. Hins vegar kom frumvarp um lífeyrissjóði þar sem enginn var spurður og reynt að troða því inn á dagskrá þingsins. Það er rosalega merkilegt ef við ætlum tala um hvernig þetta er.

Varðandi klasana og stafrænu smiðjurnar og Tækniþróunarsjóð þá er ég ekki með hlutföllin á hreinu. Hins vegar hrúguðust inn umsóknir núna til Tækniþróunarsjóðs og hvaðan þær komu hef ég ekki yfirsýn yfir. Þetta er tiltölulega nýkomið, ég hef ekki haft tíma til að skoða það, veit ekki einu sinni hvort ég hef alveg aðgang að því. Ég hef ekki aðgang að því að sjá í raun flokkun einstakra verkefna o.s.frv.

Það er mikilvægt einmitt að hafa klasana og stafrænu smiðjurnar af því að þær eru samkomustaður fólks til að vinna með ný tækifæri. Það býr til sameiginlegan þekkingarstað sem fólk getur notað til að leita að aðstoð til að komast að því hvernig það á að koma hugmyndum sínum á framfæri. Það finnst mér einmitt vanta og þar (Forseti hringir.) gætum við auðveldlega hjálpað fólki að sækja fjármagn til hugmynda sinna á rétta staði.