150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

strandveiðar.

[10:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Sjávarútvegsráðherra segir aftur og aftur að hann hafi ekki lagaheimild til að leyfa strandveiðar í september. Hann hafi ekki lagaheimild til að leyfa smábátasjómönnum að færa þannig björg í byggðir landsins, byggðir sem sárlega þurfa björgunaraðgerðir vegna Covid-kreppunnar. Sjávarútvegsráðherra segir að hann hafi ekki lagaheimild. Ha? Þetta er ráðherra sjávarútvegsmála og hann hefur heimild til að leggja fram lagafrumvarp um að fá lagaheimild til að leyfa strandveiðar í september, lagaheimild til að leyfa smábátasjómönnum að veiða það sem þeir gátu ekki veitt í fyrra. Það er leyft í stóra kerfinu. Það er skynsamlegt fyrir byggðir landsins í Covid-kreppu. Það er sjálfbært.

Hv. þingmenn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir eru tilbúnar með frumvarp sem heimilar sjávarútvegsráðherra að leyfa strandveiðar í september. Þær munu leggja það fram í dag nema sjávarútvegsráðherra verði fyrri til og geri það sjálfur.

Formaður atvinnuveganefndar segir að hennar nefnd geti ekki flutt slíkt mál og vísar í samninga þingflokka í vor. Þeir samningar segja að á þessum þingstubbi megi aðeins flytja mál sem eru Covid-mál. Píratar og Samfylkingin benda á að að sjálfsögðu er það Covid-mál að leyfa strandveiðar í september, að lágmarki það sem veiddist ekki í fyrra.

Það er mikilvægt að byggðir landsins fái heiðarlegt svar frá sjávarútvegsráðherra: Eru strandveiðar í september Covid-mál eða ekki?