150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

strandveiðar.

[10:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við töluðum um þetta í maí, hæstv. ráðherra. Þá viðurkenndi ráðherrann að hann fór aðeins umfram það sem Hafró ráðlagði honum og hann sagðist hafa heimild til þess. Hann hefur heimild til þess að gera það, auðvitað. Ætlar ráðherrann virkilega að bjóða landsmönnum upp á þá skýringu að hann sem ráðherra sjávarútvegsmála geti ekkert gert í málinu? Að hann sé bundinn af löggjöfinni þegar hann getur lagt fram frumvarp sem leysir hendur hans og heimilar honum að skammta meira? Það er hægt að gera það sjálfbært. Hvers vegna er hægt að færa á milli í stóra kerfinu, það sem var ekki veitt á síðasta fiskveiðiári? Nú, vegna þess að það er sjálfbært Það er málefnalegt og sjálfbært. Að sjálfsögðu vantar bara lagaheimildina til þess að gera það líka í strandveiðikerfinu. Það er bara spurning um pólitískan vilja og ekkert annað af því að við ráðum lögunum í landinu og það er hægt að gera það í samræmi við sjálfbærnisjónarmið fiskveiðistjórnarkerfisins. Er ráðherra virkilega að segja fólkinu í landinu að það sé ekki hægt?

Hann svaraði ekki fyrri spurningunni: Er það að heimila strandveiðar í september Covid-mál? (Forseti hringir.) Landsmenn verða að fá að vita það. Er það ekki Covid-mál að bjarga byggðunum með þeim hætti, með þeim björgunarpakka (Forseti hringir.) að strandveiðar geti haldið áfram í september? Er það ekki Covid-björgunaraðgerð (Forseti hringir.) fyrir byggðir landsins? Er það ekki Covid-mál?