150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi erum við bara búin að endurskoða fjármálastefnu einu sinni á þessu ári en við höfum gert það tvisvar á kjörtímabilinu. Í þessari stefnu erum við að draga upp breiðu línurnar. Við erum að fjalla um heildarafkomu, við erum að fjalla um skuldaþróunina og við erum að segja hvers vegna þörf sé á endurskoðun stefnunnar, hvað hafi breyst í horfum hér innan lands varðandi hagvöxt, atvinnusköpun o.s.frv. Við erum ekki að takast á við þær spurningar sem hv. þingmaður ber hér fram og snúa að því hvernig við getum örvað og nákvæmlega hvaða lausnir við ætlum að koma með að borðinu. Það höfum við verið að gera í öðrum þingmálum fyrr á árinu og munum næst taka sérstaklega fyrir í fjármálaáætluninni og í fjárlagafrumvarpinu.

Hlutirnir sem við höfum verið að kynna til sögunnar á þessu ári hafa gengið mjög vel. Hlutabótaleiðin hefur verið til umræðu á þessum þingdögum, framlenging hennar, og við sjáum að það er úrræði sem hefur gagnast mjög vel. En það er svo fjölmargt annað sem sjaldnar er rætt um sem hefur einnig skipt máli. Frestun á gjalddögum skilur eftir fjármuni hjá fyrirtækjunum þannig að þau geti betur einbeitt sér að því að fást við aðstæður. Breytingar á skattareglum leiða til þess að hjá fyrirtækjum sem áttu eða höfðu væntingar um að þurfa að greiða til ríkisins skatta á þessu ári vegna hagnaðar á árinu 2019 verða peningarnir eftir inni í fyrirtækjunum, og geta gagnast í rekstrinum. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar er sömuleiðis að koma að gagni. Það kemur ofan á annað átak sem við höfum sérstaklega lagt upp með í samgöngumálum og kemur inn á fjölbreytt svið mannlífsins á Íslandi, allt frá samgöngum yfir í grunnrannsóknir, ýmislegt sem snertir samkeppnissjóðina og margt fleira.

Hérna er í raun og veru spurt: Af hverju gerum við ekki meira hraðar? Hvað er það sem hv. þingmaður er að kalla eftir að gert verði sérstaklega? Sumir tala um að hið opinbera (Forseti hringir.) eigi að stórauka enn frekar fjárfestingu sína. Það gæti komið til álita að reyna að bæta eitthvað í en ég held að við ættum að beina sjónum okkar að hinu raunverulega vandamáli sem er fall í fjárfestingu einkageirans.