150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Þetta er allt hið sérstakasta mál en ég ætla ekki að fara í þau efnisatriði sem snúa að verklaginu og vinnubrögðunum sem viðhöfð voru við þessa breytingartillögu sem samþykkt var, að því er virðist hér um bil fyrir misskilning. Í lok seinni þingfundar í gær tókum við inn mál sem snýr að hlutafjárútboði Icelandair, tókum það á dagskrá. Það verður flutt af nefnd. Þar sem þessi þáttur, breyting á hlutdeildarlánalögunum, virðist hafa farið fullkomlega óræddur og ókynntur í gegnum allt ferlið þá velti ég því fyrir mér hvort ekki sé rétt að taka hér inn breytingartillögu velferðarnefndar, ef það er vilji til þess í velferðarnefnd, til að vinda ofan af þessari ákvörðun. Miðflokkurinn mun hið minnsta ekki leggjast gegn því að slíkt mál verði tekið hratt og vel á dagskrá þannig að það verði lögð fram breytingartillaga sem er þá hægt að taka til efnislegrar umræðu hér innan dagsins.