150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við getum alveg dregið andann djúpt í þessu máli. Hægt er að taka undir að vissulega hefði verið heppilegra að breytingartillagan hefði verið kynnt fyrir allri nefndinni áður og útskýrð og gefið svigrúm til að ræða hana. En það er kannski álitamál hversu mikil efnisleg breyting þetta er út frá því að þarna er verið að skýra reglugerðarheimild. Ég get upplýst þingheim um að mestöll umræðan um þetta mál í hv. velferðarnefnd var um hvað reglugerðarheimildirnar væru opnar og við þyrftum að skýra málið betur. Í þessari breytingartillögu er verið að skýra reglugerðarheimild ráðherra til að setja reglur um úthlutun. Þetta er heimild fyrir ráðherra að setja slíkt. En áður en við breyttum málinu þannig að úthlutað yrði í tímabilum þá var akkúrat eini forgangurinn í málinu sá sem við vorum að setja inn. Það var eini forgangurinn sem var áður í málinu. Þannig að þetta er ekki það stór efnisleg breyting eins og af er látið heldur er verið að skýra reglugerðarheimild, eins og fólst í allri umræðunni í nefndinni.