150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:21]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég tók fram áðan sendi ég póst á nefndina í morgun og óskaði eftir eða bauð að við myndum hittast og ræða þetta mál. Því var ekki tekið öðruvísi en svo að það er rokið hér upp í umræðu um fundarstjórn. Það boð stendur áfram og mér finnst ekkert óeðlilegt að við hittumst og getum jafnvel kallað ráðuneytið til skrafs og ráðagerða um málið. Og þetta var ekkert óvart. Þetta kom bara fram í gær og við brugðumst við því, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur tekið fram. Og þetta er ekki samþykkt á láni. Þó að maður sé ekki með samþykkt kauptilboð, eins og segir í drögum að reglugerð um málið um fylgigögn með umsögnum, þarf að standast ákveðin skilyrði til að geta fengið þessu láni útdeilt. Auðvitað þarf að vera samþykkt kauptilboð en það þurfa að vera skýrar reglugerðarheimildir fyrir því að kauptilboð liggi fyrir svo að hægt sé að útdeila þessu. Um það snýst málið. (Forseti hringir.) Ég held að við þurfum bara að hittast og ræða málið og þá er þetta leyst. Við þurfum ekki að hrópa hér í ræðustól.