150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Helsti lærdómurinn sem draga má af þessu er að það er lýðræðisleg skylda nefndar að athuga mál og ganga úr skugga um það hvernig öll málsatriði eru. Það er náttúrlega ekki hægt þegar það verður efnisleg breyting með breytingartillögu sem hefur ekki verið borin undir nefndina. Jafnvel þótt rætt hafi verið um einhverjar útfærslur er sú breytingartillaga endanleg útfærsla sem verður að bera undir nefndina. Það verður að gera. Það er lýðræðisleg skylda samkvæmt lögum. Þetta kennir okkur kannski að passa upp á að fólk sem hefur lýðræðislega skyldu, nefndarmenn í þessu tilfelli, til að kynna sér mál, athuga þau og gefa álit sitt, sé upplýst og, eins og við rákumst á í gær, að þeir sem hafa rétt á að koma að ákvörðunum og rétt á að samráð sé haft við þá um dagskrá þingfunda fái ávallt að gera það. Það segja þingskapalögin, rétt eins og um rétt þingmanna og skyldu til að skoða mál til hlítar.