150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt að við þurfum að horfa aðeins í þetta ferli og skoða betur hvernig aðdragandinn að tillöguflutningnum og samþykktinni var. Ég vil hins vegar ítreka það, sem hefur komið fram í máli annarra þingmanna, að ég lít ekki svo á að hér sé stór efnisleg breyting á ferðinni en það er sannarlega þannig að það hefði mátt og hefði átt að kynna hana betur áður en hún kom til atkvæða. Ég tek undir það og ég fagna því tillögu hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur um að taka snúning á því í hv. velferðarnefnd og útskýra það þar, líkt og var gert í gær eftir misskilning sem varð með framlagningu máls. Ég held að á slíkum fundi væri hægt að leiðrétta þennan misskilning. En það er full ástæða (Forseti hringir.) til þess að sýna þá auðmýkt að játa að hér eru fljótfærnisleg vinnubrögð, (Forseti hringir.) getum við sagt, og við þurfum að reyna að venja okkur af þeim.