150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að fagna orðum síðasta ræðumanns. Ég ætla einmitt að fjalla um það. Virðulegur forseti hefur enn ekki gert athugasemd við það að hér hefur farið fram þokkaleg efnisleg umræða um breytingartillöguna af hálfu bæði stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta og skyldi engan undra vegna þess að það er enginn annar vettvangur til þess að gera það, virðulegi forseti. Það var ekki hægt í nefndinni, það var ekki hægt í ræðum, frumvarpið er orðið að lögum, breytingartillagan er landslög núna. Það er enginn annar staður og ég tek því til varna fyrir þingmenn bæði meiri hlutans og minni hlutans sem fjalla hér efnislega um tillöguna.

Það þarf að gera eitthvað til að útrýma þeim flumbrugangi sem einkennir þingstörfin á svona tímabilum. Það þarf að gera eitthvað til þess og fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann. Þess vegna er svo erfitt að hlusta á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar koma hingað upp og segja að þetta sé ekki svo mikil breyting eða að til boða standi að kynna það núna. Gott og vel, það er bara ekki málið. Málið er vinnubrögðin sjálf, virðingarleysið fyrir ákvörðunarferlinu. Það er þessi endalausi flýtir, (Forseti hringir.) virðulegi forseti. Til þess að laga það þarf virðulegur forseti að viðurkenna þann vanda og hv. þingmenn meiri hlutans, og ég fagna því reyndar að einn hv. þingmaður hafi þegar gert það. Ég hlakka ekki til (Forseti hringir.) að ræða þetta í velferðarnefnd en fagna því þó að það muni gerast.