150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í efnislega umræðu um þetta mál hér en segja að mér finnst hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir almennt hafa haldið mjög vel á málinu. Fram komu óskir, bæði í umræðu hér við upphaf þessa máls og í nefndinni, um að gera ákveðnar breytingar á málinu. Þær hafa margar hverjar gengið í gegn.

Ég vil segja að mér finnst mjög gott hvernig hv. þingmaður hefur boðað að taka umræðu um málið í nefndinni. Jafnframt vil ég segja það, til að koma í veg fyrir misskilning, ef einhver er, að það er fullur vilji bæði stjórnarmeirihlutans og ráðherrans að allar reglugerðir sem tengjast málinu verði kynntar í hv. velferðarnefnd áður en þær verða undirritaðar, einfaldlega vegna þess að hér er um stórt mál að ræða og full ástæða til að eyða allri tortryggni gagnvart því.

Ég fagna allri þessari umræðu. Mér finnst hv. þingmaður hafa boðið vel, að tekin verði umræða um þetta mál. Bæði ráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eru líka boðin og búin að hitta nefndina til að ræða það. Allar þær reglugerðir sem verða undirritaðar sem tengjast málinu hyggst ég kynna í velferðarnefnd áður en þær verða undirritaðar.