150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

afgreiðsla frumvarps um hlutdeildarlán.

[11:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að auðvitað eigi líka að fara yfir það að hér er almennt séð og yfirleitt vandað til verka, og gagnrýni mín var a.m.k. ekki sett fram með þeim hætti að mönnum hafi beinlínis gengið eitthvað illt til eða einhver ásetningur legið að baki. Hins vegar blasir við, þegar við hittumst á þessum stubbi til að ræða grundvallarmál, stór mál og lykilefnahagsaðgerðir, og fáum til þess fimm daga, til að ræða mál sem stjórnin sjálf hefur haft í undirbúningi mánuðum saman, að það verklag er auðvitað til þess fallið að hér verði gerð mistök. Ég held að það sé ekki til að auka virðingu þingsins ef óskin er sú að ekki megi ámálga þau mistök. Svo er það kannski spurning hvernig sú gagnrýni eða það samtal, það uppbyggilega samtal, er fram sett. En gagnrýnina verða menn að þola.