150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[14:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er þetta mál til bóta miðað við gildandi lög og því kem ég til með að styðja það. Aftur á móti verður líka að minnast á að málið endurspeglar í sinni lokamynd glötuð tækifæri til að gera betur, til að gera meira og til að gera suma hluti öðruvísi. Ég er sannfærður um að nefndin hefði getað komið sér saman um það hefði hún haft meiri tíma. Ég held að hún hefði haft meiri tíma ef almennt væri meiri metnaður hér fyrir því að skila góðu verki frekar en að skila því fljótt.

Að því sögðu styð ég málið en vona að tækifærin verði betur nýtt þegar fleiri mál koma fram til að bregðast við faraldrinum. Auðvitað er það rétt að þetta er ekki eina málið og auðvitað er það rétt að meira verður gert, en tækifæri gefast til að gera betur og við eigum að nýta þau.