150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi verðum við að muna við hvaða aðstæður þessi heimild er veitt til að fella lögin um ríkisábyrgðir úr gildi. Það er gert vegna þess að kórónuveirufaraldurinn hefur valdið algjörum markaðsbresti þegar kemur að flugsamgöngum. Það breytir auðvitað ekki því að þegar hinn eðlilegi taktur verður kominn skiptir samkeppnin auðvitað máli. En það er við þessar sérstöku aðstæður sem verið er að veita heimildina. Það hefur komið fram að ESA hefur farið yfir skilmála ríkisábyrgðarinnar og metur að allar reglur séu uppfylltar. (Gripið fram í.) Verið er að fara í aðgerðir í fullt af öðrum löndum í kringum okkur og þá má (Forseti hringir.) nefna að ESA hefur einnig samþykkt þær aðgerðir sem fara á í vegna flugfélagsins SAS.