150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Fáir efast um gildi Icelandair fyrir samgöngur til og frá landinu. Sömuleiðis liggur fyrir að umrætt fyrirtæki er kerfislega mikilvægt fyrir íslenskt hagkerfi eins og sú skilgreining liggur fyrir. Icelandair hefur í raun verið lífæð í samgöngum landsmanna hvort sem litið er til fólksflutninga eða vöruflutninga. Fyrirtækið býr að miklum mannauði og reynslu ásamt því að vera vinnustaður þúsunda Íslendinga og viðskiptavinur fjölmargra annarra íslenskra fyrirtækja. Gjaldþrot þess fyrirtækis væri því íslenskum hagsmunum dýrkeypt. Við þurfum að horfast í augu við það.

Þótt flestir vilji tryggja framtíð Icelandair þurfum við að huga að ákveðnum atriðum að mati Samfylkingarinnar og fleiri reyndar.

Gagnrýnt hefur verið að veðin fyrir hinu ríkistryggða láni séu ekki næg. Ríkisendurskoðun hefur m.a. bent á það í sinni umsögn. Ríkisendurskoðun er stofnun sem heyrir undir Alþingi, ekki framkvæmdarvaldið, ráðherrana. Þetta er há upphæð, 15 milljarðar, og til að setja þessa tölu í samhengi þá er þetta hærri upphæð en allar barnabætur landsmanna. Þetta er einnig hærri upphæð en það sem þessi ríkisstjórn setur í húsnæðisstuðning til allra landsmanna. Hún er tæplega helmingurinn af því sem allir framhaldsskólar Íslands kosta. Þetta er há upphæð, við þurfum að hafa það í huga.

Þess vegna skiptir máli hvernig veðum er háttað, að sjálfsögðu. Maður lánar og fær veð á móti. Það er trygging. Það er óumdeilt í þessu máli að tryggingarnar duga ekki. Þær duga ekki. Ráðuneytið sagði það á fundi fjárlaganefndar. ASÍ, Alþýðusamband Íslands, benti sömuleiðis á þetta. Það segir í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„… stjórnvöldum og Alþingi [ber] að verja hagsmuni ríkisins í hvívetna í gegnum traust veð eða að ríkið eignist hlut í félaginu. Óvissa ríkir um hvort þetta skilyrði sé uppfyllt líkt og sjá má í umsögn Ríkisendurskoðunar en þar segir að ósennilegt sé að tryggingar geti numið þeim 15 milljörðum sem lánaðir eru.“

Ríkisendurskoðun segir einnig í sinni umsögn:

„Annar möguleiki í stöðunni væri að ríkissjóður eignaðist hlut í félaginu ef gengið yrði á ábyrgðir eða hreinlega tæki rekstur þess yfir með það fyrir augum að finna síðar mögulega eigendur.“

Þess vegna teljum við í Samfylkingunni að ekki hafi verið fullreynt hvort hægt hefði verið að auka veðin fyrir þessum lánalínum með ríkisábyrgðinni. Ef lánið lenti í vanskilum og framlögð veð dygðu ekki — samkvæmt plagginu eru veðin vörumerkið, bókunarkerfið og hugsanlega tvö lendingarslott — vildum við skoða og fá ítarlegri umfjöllun um það hvort við ættum ekki að útvíkka tryggingarnar þannig að veðið myndi ná til hlutafjár félagsins, hvort sem það er núverandi hlutafé félagsins eða hlutafé eftir útboðið. Að sjálfsögðu getur ríkið aukið skilyrði fyrir hinu ríkistryggða láni með auknu veðandlagi og síðan er það hluthafanna að ákveða hvort þeir sætti sig við slík skilyrði, sé það gert á forsendum ríkisaðstoðarinnar. Við erum með skilmála, sem við í nefndinni erum m.a. að breyta þegar kemur að samkeppnisþættinum, ég kem aðeins inn á það á eftir. Það hefði verið hægt að bæta því inn að auka veðandlagið þannig að það myndi ekki bara ná til vörumerkis, bókunarkerfis og tveggja lendingarslotta heldur einnig til hlutafjár. Þetta er ein af þeim leiðum sem við hefðum átt að skoða betur en við fengum, eins og allir vita í þessum sal, örfáa daga til að fara yfir stórt mál á meðan ráðuneytið lá yfir þessu máli í allt sumar. Ráðuneytið ætlast til að við stimplum meira og minna allt frá þeim lítið breytt.

Þetta er ein leið, alveg einnar messu virði að skoða hana. Við viljum tryggja hagsmuni Icelandair, við viljum halda lífi í Icelandair vegna þess að það er dýrkeypt að gera ekki neitt. En við þurfum líka að gæta að hagsmunum almennings og skattgreiðenda og starfsfólks. Ég er ekki að pæla í hagsmunum hluthafa. Kerfið gerir ráð fyrir því, menn tapa, kapítalisminn gerir ráð fyrir því ef illa fer. En það sem ég er að pæla í eru hagsmunir almennings af því að missa þetta fyrirtæki í gjaldþrot. Við erum með skilgreiningu á því hvað er kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Það er ekki hvaða fyrirtæki sem er. WOW air var t.d. ekki kerfislega mikilvægt. Það er stærðin sem skiptir hér máli og Icelandair sem hefur verið ábyrgt fyrir, a.m.k. á vissu tímabili, um 70% af öllum flutningum til og frá landinu uppfyllir þetta skilyrði, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

Önnur leið fyrir utan veðleiðina væri að tryggja breytirétt ríkisins. Hvað er það? Þá tryggjum við að ríkið hefði rétt á að breyta láninu í hlutafé. Leiðin felst í því að það er fyrir fram heimilað með samþykki hluthafafundar og með tilheyrandi breytingum á samþykktum félags, að félagið taki lán með þeim skilmálum að greiða megi lánið með útgáfu á hlutafé til kröfuhafa. Þetta kallast breytiréttur. Hann er oft einhliða og hann er oft einhliða hjá lánveitandanum, hjá hinu opinbera. Í slíkum tilvikum hefði ríkið kost á því að breyta kröfu sinni, 15 milljörðum, í hlutafé ef fjárhagsstaða félagsins krefðist þess. Það getur verið ef ástæðan er bæði til hins verra eða til góðs, ég kem inn á þetta aftur. Breytiréttur er því varúðarréttur. Ég er bara að pæla í því hvernig við tryggjum betur hagsmuni skattgreiðenda og almennings. Í nefndaráliti mínu fer ég aðeins yfir það hvað felst í þessum breytirétti. Ég hefði gjarnan viljað að á vettvangi nefndarinnar og þingsins hefði það verið betur ígrundað hvort þetta væri hugsanlega leið.

Segjum að áform Icelandair gangi ekki eftir, sem enginn vonar, og það lendi í vanskilum með ríkistryggðra lánið. Þá getur verið kostur að ríkið geti breytt sinni skuld, sinni kröfu, í hlutafé. Þá er ríkið orðið einn af eigendum hlutafélagsins Icelandair og þá getum við sem eigandi haft eitthvað að segja í frekari björgunaraðgerðum og hugsanlegri endurreisn. Auðvitað vonar enginn að til þess komi. En þetta er varúðarréttur. Það getur verið Íslendingum í hag að ríkið geti komið inn, fari hlutirnir í óefni, sem eigandi til að taka þátt í hugsanlegri endurreisn þessa félags. Það er það sem ég er að tala fyrir.

Breytiréttur getur líka tryggt hagsmuni ríkisins ef vel gengur þannig að hið opinbera fái hluta af hugsanlegum ávinningi, gangi áform um uppbyggingu og endurreisn vel. Þetta getur líka verið réttlætanlegt í ljósi þess að skattgreiðendur eru að rétta félaginu hjálparhönd í formi ríkisábyrgðar. Það er ekki sjálfsagt, ekkert sjálfsagt að veita Icelandair ríkistryggt lán. Menn þurfa að gera það að vel ígrunduðu máli, eðlilega.

Við heyrum oft frasann, sem er miklu meira en frasi, að það gengur ekki að við þjóðnýtum alltaf tapið og einkavæðum hagnaðinn. Það er allt of oft lenskan hér að við þjóðnýtum eða ríkisvæðum tapið en einkavæðum gróðann. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að við skoðum þá leið aðeins betur, að tryggja breytirétt ríkisins sem skilyrði fyrir lánveitingunni. En meiri hlutinn treystir sér ekki í þetta og vill að málið fari óbreytt í gegn, enda er þetta mál á ábyrgð hans.

Það er áhugavert að fjölmörg ríki Evrópu eiga hlut í flugfélögum eða hafa sett það skilyrði fyrir aðstoð sinni að ríkið eignist hlut í félögunum sem þau eru að aðstoða, þótt það sé ekki nema tímabundið. Ef ríkið eignast hlut í Icelandair er ég ekki að segja að ríkið eigi endilega að eiga þann hlut lengi, alls ekki. En það er áhugavert að sjá að sænska og danska ríkið eiga nú í SAS, finnska ríkið á í Finnair, hollenska ríkið á í KLM, franska ríkið á í Air France, Nýja-Sjáland á í Air New Zealand og þýska ríkið, frú Merkel, eignaðist um daginn hlut í Lufthansa samhliða aðstoð sem það félag fékk frá ríkinu. Þetta er áhugavert. Það er engin goðgá að tala um þetta. Ég er að nálgast málið út frá hagsmunum almennings og samfélagsins og hagkerfisins.

Þetta eru kannski helstu tveir þættirnir sem ég vil draga fram hvað varðar hina bágu tryggingavernd ríkisins.

Við leggjum mikla áherslu á að umrædd lánalína nái einungis til flugrekstrar milli landa en ekki til annarra þátta samstæðunnar. Það er ánægjulegt að samkomulag náðist í nefndinni um að þessu yrði bætt við skilmálana. Við eigum ekkert að fara að aðstoða Icelandair við að reka hótel eða ferðaskrifstofu. Það sem við erum að fókusera á er flugreksturinn milli landa og það heyrist frá flestum úr þessum ræðustól og enginn misskilningur má vera þar á ferð. Hér þurfum við að gæta að samkeppninni. Samkeppniseftirlitið kom með áhugaverða umsögn hvað þetta varðar og benti einmitt á það að við þyrftum að einskorða ríkisaðstoðina við flugið, en það var ekki í upprunalega plagginu, a.m.k. ekki samkvæmt orðanna hljóðan. Allir þingmenn eru sammála um að breyta þessu.

Fyrst ég nefni Samkeppniseftirlitið er líka áhugavert að samhliða þessari ríkisábyrgð þarf að huga að hugsanlegri samkeppni á þessum markaði. Play er í startholunum og auðvitað viljum við samkeppni á þessum markaði. Neytendur hagnast á samkeppni almennt séð. Við viljum ekki hafa það þannig að aðstoð við Icelandair hafi þær slæmu afleiðingar að við drepum í fæðingu samkeppni á flugmarkaðnum. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins eru nokkur flott atriði að mínu mati sem við ættum a.m.k. að íhuga og ráðast í samhliða þessari ríkisaðstoð til Icelandair. Þetta eru nokkur skref og ég vil flagga þessum hugmyndum Samkeppniseftirlitsins.

Frú forseti. Ég held að við hefðum einnig átt að auka aðeins skilyrðin fyrir ríkisaðstoðinni. Nota bene, ég er ekki að koma í veg fyrir aðstoðina en við getum gert þetta aðeins betur. Það er annað sem ég vil draga sérstaklega fram. Við erum með margs konar skilyrði nú þegar í skilmálunum. Mér finnst það ámælisvert að stjórnendur Icelandair hafi þann valmöguleika að geta greitt sér ofurlaun eða bónusa á meðan á ríkisaðstoð stendur. Sporin hræða í þeim efnum. Við höfum nú séð íslenskt atvinnulíf fljótt grípa til ofurlauna, hafi það tækifæri til þess. Ég er ekkert að segja að Icelandair muni gera það. En af hverju ekki að bæta því við að á meðan ríkisaðstoðar nýtur við sé það ekki valmöguleiki?

Við höfum sömuleiðis séð úti í Evrópu að ýmsar ríkisstjórnir hafa sett það skilyrði fyrir ríkisaðstoð að fyrirtæki sem njóta hennar stígi stór, mælanleg græn skref. Þetta skiptir máli. Við erum á krossgötum í loftslagsmálum og fyrirtæki, stórfyrirtæki, þurfa að stíga áþreifanleg skref í loftslagsmálum. Það er einstakt tækifæri fyrir okkur, á meðan þau vilja njóta aðstoðar ríkisins, að auka skilyrði og kröfur á slík fyrirtæki um að þau stígi græn skref.

Mig langar líka að draga það fram sem ég sagði áðan um skattaskjólin. Þetta skiptir máli. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin var ekki tilbúin að bæta í skilmálana að það sé óumdeilt að eigendur Icelandair, hvort sem það eru núverandi eða verðandi eigendur eftir útboðið, megi ekki rekja rætur sínar til skattaskjóla? Þetta skiptir máli. Munið Panama-skjölin: Íslendingar áttu langflesta fulltrúa miðað við höfðatölu. Og munið þið hvað var í Panama-skjölunum? Þetta var ein lögmannsstofa í einu landi en þetta voru mörg hundruð dæmi. Þetta er því ekki eitthvert jaðardúllulegt mál. Þetta skiptir máli. Auðvitað eiga fyrirtæki sem leita til okkar, til ríkisins, eða njóta góðs af því með einum og öðrum hætti, ekki að vera með eigendur sem eru skráðir í skattaskjólum. En þetta fékkst ekki í gegn þrátt fyrir að ég hafi ítrekað talað um það á vettvangi nefndarinnar. Eitt af skilyrðunum hér er að höfuðstöðvar móðurfélagsins verði á Íslandi. Gott og vel. Af hverju ekki að bæta því við að það komi engan veginn til greina að eigendur að þessu fyrirtæki hafi eignarhald sitt í skattaskjólum? Ég veit að eftirlitið er erfitt o.s.frv., ég veit að vilji menn brjóta reglurnar þá geta þeir oft gert það. En þetta væri pólitísk yfirlýsing sem skiptir máli. ASÍ kallaði eftir þessu í sinni umsögn.

Að lokum, frú forseti, fyrst við erum að tala um Icelandair, vil ég fordæma þá hegðun sem forsvarsmenn Icelandair sýndu flugfreyjum í nýlegri kjaradeilu þeirra. Annan eins subbuskap hef ég ekki séð lengi. Ég held að flestir séu sammála um að þar gengu forsvarsmenn Icelandair allt of langt, sýndu taktík í kjaraviðræðunum sem við viljum ekki sjá. Það er mikilvægt að svona hegðun sjáist ekki aftur í kjaradeilum á íslenskum vinnumarkaði. Það þarf að vera alveg kristaltært að fyrirtæki sem ætla að starfa hér, hvað þá fyrirtæki sem vilja njóta ríkisaðstoðar, þurfa að virða í hvívetna kjarasamninga, íslenskar reglur og hefðir — takið eftir því, hefðir — á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er að sjálfsögðu ófrávíkjanleg krafa.

Frú forseti. Það vekur athygli að hér er ekki stuðst við lög um ríkisábyrgðir. Við erum með sérstök lög um ríkisábyrgðir og þeim er vikið til hliðar. Hefðum við stuðst við þau hefði vinnan kannski verið með öðrum hætti, hún hefði verið ítarlegri ef við hefðum stuðst við þau lög. Þá hefði Ríkisábyrgðasjóður farið í miklu meiri greiningarvinnu en hér var boðið upp á þar sem greiðsluhæfi skuldara er metið, afskriftaþörf er metin vegna áhættu af ábyrgðunum. Það er lagt mat á tryggingar sem lagðar verða fram vegna ábyrgðarinnar og það er lagt mat á áhrif ríkisábyrgða á samkeppni. Ekkert af þessu var gert með þeim hætti þó að eitthvað hafi verið gert í þeim efnum. Það er sérkennilegt að við höfum ekki stuðst við þau lög.

Að því sögðu, frú forseti, vil ég draga það fram að ég vona að Icelandair taki flugið. Ég vona að við náum að tryggja hér störf og starfsemi þessa mikilvæga félags. Það sem skiptir mig sem stjórnmálamann mestu máli er að við náum að tryggja eðlilegar og öflugar samgöngur við umheiminn. Við þurfum á því að halda, hvort sem litið er til fólksflutninga eða vöruflutninga. Það skiptir máli að hér sé staðið rétt að málum. Samfylkingin mun ekki leggjast gegn þessu máli en hins vegar er alveg ljóst að það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Við komum seint og illa að málinu og ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að bera á því 100% ábyrgð. Við höfum ekki fengið þann tíma sem við vildum og ekki heldur stjórnarþingmennirnir. Þetta var meira og minna hjá ráðuneytinu.

Ég vil draga það fram að það er óþarfi af hálfu fjármálaráðuneytisins að haga sér alltaf svona í þessum Covid-málum. Þetta er Covid-mál. Af hverju er ekki þinginu hleypt fyrr að málum? Ég sé að stjórnarþingmenn eru oft jafn hissa og ég og þeir þurfa að bera hitann og þungann af þessu. Þeir þurfa að svara okkar gagnrýni. Við gætum sameinast um, hvar sem við erum í salnum, að þrýsta á fjármálaráðuneytið, sem er stjórnað af formanni Sjálfstæðisflokksins, að hleypa fleirum fyrr að málunum. Málin batna almennt við það, hvort sem það eru hagsmunaaðilar sem koma að eða almannasamtök eða hinir stjórnmálaflokkarnir. 47% Íslendinga kusu ekki stjórnarflokkana. Við höfum lýðræðislegt umboð þótt við séum í stjórnarandstöðu til að koma að málum og ekki síst á tímum eins og þessum þar sem er neyðarástand á íslenskum vinnumarkaði, þar sem kreppir að. Við getum staðið miklu betur saman.

Ég hélt ræðu í gær um fjármálastefnuna. Við erum lítið samfélag sem hefur alla burði til að koma standandi upp úr þessari kreppu, en byrjum að vinna aðeins betur saman. En boltinn er hjá ráðherrunum. Ég brýni mína kollega, óbreytta stjórnarþingmenn, að standa með okkur. Ég veit að margir hafa verið árum saman í stjórnarandstöðu og vita alveg hvernig tilfinningin er að vera hinum megin við borðið. Ég hvet þá til að standa með okkur í komandi Covid-málum eða aðgerðum og hleypa okkur fyrr að. Málin batna við það og það næst jafnvel meiri sátt um þau. En ég er búinn að segja þetta og við erum búin að segja þetta frá því að Covid barst til landsins og lítið sem ekkert hefur gerst í þeim efnum. Á meðan er formaður Sjálfstæðisflokksins með allt sem hann vill hafa hjá sér og það finnst mér miður. Það eru ekki hagsmunir Íslendinga að haga vinnunni með þeim hætti sem hér hefur verið gert, ef ég tala alveg hreinskilnislega. Við getum gert betur og við getum opnað þetta samstarf miklu betur. Það skiptir máli. Þetta mál er eitt af þeim sem sýna það ágætlega, stórt mál sem snertir eitt stærsta og mikilvægasta fyrirtæki landsins. Við erum að afgreiða það á minna en viku. Það sjá það allir sem vilja að það eru ekki góð vinnubrögð, frú forseti.