150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við þurfum ekki bara að íhuga áhrifin á hugsanlega hluthafa sem taka þátt í útboðinu. — Jú, við þurfum að íhuga þau. Hefur þetta áhrif á fjárfestingarvilja þeirra? En af hverju megum við ekki líka ræða aðeins áhrifin á skattgreiðendur og almenning? Ég er ekki að amast við því að leyfa Icelandair að spjara sig sjálft. Ég tala fyrir því að ef þetta fer á versta veg, af hverju við getum þá ekki aukið tryggingavernd ríkisins. Það er það eina sem ég er að tala um. Ég er ekkert að hrófla við þessari hugmynd „síðast inn, fyrst út“ eða því að leyfa hluthöfunum að reyna að spjara sig. Gangi þeim vel. Ég meina það virkilega: Gangi þeim vel að endurreisa þetta félag.

En ef þetta fer á versta veg er ljóst að íslenskir skattgreiðendur þurfa að borga brúsann sem nemur a.m.k. 15 milljörðum því að tryggingarnar duga ekki nema að litlu leyti, það er a.m.k. óljóst, við skulum orða það þannig. Það er eina nálgun mín úr þessum ræðustóli og í nefndaráliti mínu: Af hverju er ekki þverpólitísk samstaða um að auka hér tryggingavernd gagnvart íslenskum skattgreiðendum? Er ekki nóg komið? Má ekki hugsa til þeirra líka ef allt fer á versta veg, sem enginn hér inni vonar. Auðvitað vona ég innilega að þeir þurfi ekki að grípa til þessarar lánalínu. En ef svo fer, af hverju má ekki tryggingavernd ríkisins vera meiri en boðið er upp á? Af hverju er það svo slæmt? Þetta eru hagsmunir almennings, þetta eru 15 milljarðar. Þetta er meira en það sem ríkisstjórnin tímir að setja í húsnæðisstuðning. Þetta skiptir máli. Ég er ekkert að reyna að leggja stein í götu þessa fyrirtækis, bara alls ekki.

Ég sé að ég fæ einhverjar aukamínútur. En allt í lagi, ég er svo sem farinn að endurtaka mig. Mér finnst að við gætum verið samferða í þessu máli, í því að gæta aðeins betur að hagsmunum almennings, samhliða því að Icelandair spjari sig og nái aftur flugi.