150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram undir lok máls míns: Svo langt sem þær áætlanir ná. Ég horfi ekki á málið sem fjárfestir. Ef ég kæmi að kynningunni í Hörpu sem viðvaningsfjárfestir fyndist mér hún líta mjög vel út. Þetta er ákveðin glansmynd. Ég gæti ekkert sett út á hana, en það væri hins vegar ekki hlutverk mitt. Hlutverk mitt er að horfa á málið sem kjörinn fulltrúi. Út frá þeim forsendum eru gloppurnar gríðarlega stórar, eins og ég lýsti í ræðu minni. Reynt hefur verið að redda Icelandair með hlutabótaleiðinni, uppsagnarleiðinni, sérsniðnum skilmálum fyrir lífeyrissjóði þannig að þeir geti tekið þátt í akkúrat þessu útboði og þar að auki á að veita ríkisábyrgð. Allt sem talið hefur verið upp, óháð áætlunum félagsins sem gætu verið mjög aðlaðandi fyrir fjárfesta, er ekki aðlaðandi fyrir mig sem kjörinn fulltrúa.