150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar. Ráðherra hefur lagt fram þau tvö frumvörp sem hér eru til umfjöllunar í því skyni að veita ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair Group hf. Af hverju segi ég Icelandair Group hf.? Af hverju segi ég ekki bara Icelandair? Jú, vegna þess að allar sviðsmyndir og öll aðkoman og útreikningar á því hvað þyrfti til og teldist þokkalega nægjanlegt fyrir þessari ríkisábyrgð, til þess var fengið félagið Deloitte, byggðu í raun á allri grúppunni Icelandair. Ég hefði viljað sjá skýrt og skorinort sýnt fram á þörfina á stuðningi við Icelandair til þess að tryggja flug til og frá landinu. Þessi ríkisábyrgð hefur það að markmiði að liðka fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækis í einkarekstri. Undir eðlilegum kringumstæðum á ríkið að halda sig frá rekstri fyrirtækja á samkeppnismarkaði. En þegar fyrirtæki sinna kerfislega mikilvægri þjónustu getur það varðað almannahagsmuni að tryggja áframhaldandi rekstur þess. Að mati okkar í 3. minni hluta telst Icelandair óumdeilanlega sinna kerfislega mikilvægum samgöngum, þ.e. alþjóðaflugi til og frá landinu. Þegar hætta er á gjaldþroti félagsins er það hlutverk ríkisins í þessu tilviki að tryggja flugsamgöngur, að þær raskist ekki. Við í Flokki fólksins höfum ekki farið í neinar grafgötur með það að við teljum Icelandair kerfislega mikilvægt fyrirtæki og það varðar okkur öll og almannahag að við höldum línunni opinni til og frá landinu. Icelandair er eina íslenska fyrirtækið sem er í öruggum flugrekstri til og frá landinu.

Ríkisstjórnin hefur með frumvörpum þessum leitað heimildar til að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð á lánum sem geta numið allt að 108 millj. bandaríkjadala eða sem jafngildir 90% af 120 millj. bandaríkjadala lánalínum til félagsins. Í stað þess að nýta gildandi lög um ríkisábyrgðir, eins og hefur komið fram hér á undan hjá fulltrúum 1. og 2. minni hluta fjárlaganefndar, hyggst ríkisstjórnin leita sérstakrar heimildar í fjáraukalögum. Þau rök eru færð fyrir undanþágunni að skilyrði laga um ríkisábyrgðir henti ekki í þessu tilviki. Það verður að teljast óheppilegt að ríkisstjórnin þurfi í hverju tilvikinu á fætur öðru — hugsið ykkur, hverju á fætur öðru — að víkja frá gildandi lögum til að ná markmiðum sínum. Eflaust er það svo að margir þessara lagabálka eru komnir til ára sinna og henta illa í aðstæðum sem þessum. Það er hins vegar á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna að tryggja að lögin í landinu séu sniðin að nútímaaðstæðum. Ef lög um ríkisábyrgðir eru til að mynda svo úrelt að þurfi að sneiða hjá þeim verður að spyrja hvers vegna ekki hafi verið gerðar úrbætur á þeim. Það er með öllu ótækt að Alþingi þurfi ítrekað að veita undanþágur frá gildandi rétti þar sem meiri hlutinn hefur ekki unnið að nauðsynlegum úrbótum laganna. Eða er þetta, virðulegi forseti, kannski ekki ástæðan fyrir því að lög um ríkisábyrgðir eru sniðgengin? Ég læt það liggja hér.

Stefnt er að því að veð verði tekin í vörumerkjum, bókunarkerfum og lendingarheimildum Icelandair. Ljóst er að þau veð standa ekki undir hugsanlegum skuldbindingum félagsins fari allt á versta veg. Þá er auk þess talsverð óvissa um fjárverðmæti lendingarheimildanna, enda eru þær háðar ýmsum skilyrðum sem geta hæglega komið í veg fyrir að þær gangi kaupum og sölum. Ríkisendurskoðun benti á það í umsögn sinni að það væri afar ósennilegt að þær eignir sem settar eru að veði stæðu undir kröfum sem gætu numið allt að 15 milljörðum kr. Þá er félagið verulega skuldsett og óvíst er hvaða sæti ríkið skipar í röð kröfuhafa, verði félagið gjaldþrota.

Fyrir nokkrum dögum var hæstv. fjármálaráðherra einmitt inntur eftir virði þessara veða. Eins og ég skildi það þá var hann ekki viss um að það væri jafnvel hægt að ganga að þeim veðum yfir höfuð, það væri líklega ekki fordæmi fyrir því að líta mætti á lendingarslott og annað slíkt sem veð og þá hvers virði það væri.

Það er því talsverð fjárhagsleg áhætta undir fyrir ríkissjóð verði sjálfskuldarábyrgðin veitt. Þá hefði 3. minni hluti kosið að ríkissjóður hefði getað eignast hlutafé í félaginu í hlutfalli við nýtingu ríkisábyrgðarinnar hefði til hennar komið.

Mig langar að benda á það nýjasta þegar þýska ríkið tók til sín núna 20% hlut í Lufthansa. Það veitti ábyrgð upp á 9 milljarða evra eða um 120 milljarða íslenskra króna. Við sjáum að þarna eignast þeir um 280 milljarða virði í félaginu. Það er ekki nýtt að þýska ríkið stígi svona inn, það hefur áður gert það og aðstoðað við að reisa félagið sem það telur kerfislega mikilvægt fyrir sig. Síðan þegar ríkið hefur reist það úr öskustónni hefur því verið komið aftur á frjálsan markað. Það er akkúrat ekkert sem segir að við getum ekki gert slíkt hið sama, ekki a.m.k. að mati 3. minni hluta.

Aðstoð ríkisins til einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri má ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að tryggja kerfislega mikilvæga hagsmuni. Hér vandast málin nefnilega. Icelandair Group hf. er móðurfélag ýmissa fyrirtækja í margvíslegum rekstri. Á vegum þess er ekki aðeins alþjóðlegur flugrekstur, heldur einnig flugafgreiðsla, innanlandsflug, ferðaþjónusta og hótelrekstur. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því að aðrir þættir í starfsemi Icelandair Group en millilandaflug Icelandair séu kerfislega mikilvægir. Það er ekki séns. Enda eru allir aðrir þættir, fyrir utan Air Iceland Connect sem flýgur til Grænlands og Færeyja, að mér skilst, í bullandi innanlandssamkeppni. Icelandair er óumdeilt eina íslenska starfandi flugfélagið sem sinnir flugi til og frá landinu, eins og ég hef áður sagt. Í öðrum verkefnum fyrirtækisins er virk samkeppni við innlenda aðila. Það verður því að tryggja með lögum að sú ábyrgð sem ríkið veitir sé takmörkuð við Icelandair og einungis til að tryggja áframhaldandi flugsamgöngur til og frá landinu.

Samkeppniseftirlitið hefur, ásamt innlendum samkeppnisaðilum sem hafa komið fyrir fjárlaganefnd, varað við því að ríkisaðstoð við samsteypuna í heild raski samkeppnisstöðu á markaði.

Það er þetta sem ég hef ítrekað, virðulegi forseti, verið að tala um. Við erum með nefndarálit fjárlaganefndar. Ég vil þakka nefndinni, sem ég hefði kannski átt að gera í byrjun, fyrir vel unnin störf því að það verður að segjast eins og er að við fengum alveg ótrúlega skamman tíma. Og ekki bara skamman tíma í að taka í fangið svona risavaxin mál eins og fjármálastefnan var, sem við erum nýbúin að afgreiða, og svo þessi risaríkisábyrgð, heldur er maður á harðahlaupum við að reyna að hnoða saman nefndaráliti því að maður hefur akkúrat engan tíma til þess. Þar er líka vikið frá meginreglunni og eiginlega skráðu reglunni um að við eigum að hafa til þess allt að tvo sólarhringa en ekki tvo tíma, eins og maður hefur verið að upplifa núna. En það breytir ekki þeirri staðreynd að við höfum öll verið af vilja gerð og lagt okkur virkilega fram, hvort heldur sem var meiri hluti fjárlaganefndar eða við í minni hlutanum. Það breytir ekki þeirri staðreynd að nefndarálitinu var breytt, það kom frá ráðuneytinu, til að reyna að koma til móts við það sem við ítrekuðum, við vildum tryggja að þetta sneri að Icelandair og tekinn væri af allur vafi um að verið væri að bjarga því að við hefðum samgöngur til og frá landinu og kerfislegu mikilvægi þess. Þá fannst okkur í lófa lagið að segja einfaldlega Icelandair, bara alls staðar Icelandair, enda hefur frá upphafi, frá því snemma í vor, í apríl minnir mig, þegar hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra voru að ræða hvort hugsanlega gæti komið til þess að ríkið þyrfti að stíga inn og bjarga því sem bjargað yrði ef þess gerðist nauðsyn, aldrei verið talað um Icelandair Group eða einhverja leggi þar innan borðs eða Air Iceland Connect eða eitt eða neitt, ekkert nema Icelandair.

Um þetta hefði ég viljað marka stefnuna og hefði það verið skýrt, eins ég sagði við hv. fjárlaganefnd, hefði ég stolt verið á þessu nefndaráliti. Það er bara þannig. En fyrst svona var um hnútana búið þá sá ég mér það því miður ekki fært og ég skil ekki enn þá hvers vegna ekki mátti skilyrða þetta við Icelandair. Um leið og það er ekki gert þá er í raun öllum rökum, sem fram voru sett til að sannfæra alla þjóðina sem og alla aðra um nauðsyn þess að koma með ríkisábyrgð inn í félagið, fleygt út um gluggann að mínu mati.

Engu að síður er útlit fyrir að engar kröfur verði gerðar í fjáraukaheimildinni um að lánalínur sem sjálfskuldarábyrgðin nær til verði einungis nýttar í þágu alþjóðlegs flugreksturs Icelandair. Það er langt frá því að vera fullnægjandi að setja fram skilyrði í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem hvergi sér stað í lögunum sjálfum um ríkisábyrgðina. Alþingi sem löggjafi á að afmarka betur fjáraukaheimildina sjálfa. Við erum að taka þetta saman, eins og ég sagði í upphafi, þetta er fjórði fjáraukinn sem við erum með í fanginu núna og þessi fjárauki er eingöngu til kominn til að veita þessa heimild til ábyrgðar fyrir Icelandair Group. Alþingi sem löggjafi á að afmarka betur fjáraukaheimildina sjálfa til að tryggja að lánalínur með ríkisábyrgð verði ekki nýttar til samkeppni á innlendum markaði. Alþingi á ekki að veita opna heimild af þessu tagi. Það er okkur í lófa lagið að skilyrða ábyrgðina þannig að þær lánalínur sem hún tryggi verði aðeins nýttar í þágu alþjóðlegs flugreksturs Icelandair.

Ríkisstjórnin lætur ekki bíða eftir sér þegar vandi steðjar að risafyrirtæki á markaði. Það væri óskandi að hún sýndi sams konar áhuga gagnvart vaxandi fátækt í landinu, í kjölfarið á Covid-19 faraldrinum, en hún hefur ítrekað hafnað tillögum Flokks fólksins um að auka aðstoð við fátæka í samfélaginu. Hér birtist okkur kristaltært forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Fjármagnseigendur og fyrirtæki fá forgang. Fátækir mega bíða. Mætti ekki hjálpa hvorum tveggja? Í þessu tilviki er fyrirtæki á markaði okkur kerfislega mikilvægt og við hreinlega neyðumst til að bjarga því en hefðum við ekki getað bjargað hvorum tveggja? Við erum að tala um risafúlgur fjár, allt að 15 milljarða kr., en á sama tíma er vaxandi atvinnuleysi og fleiri og fleiri fara á framfærslu sem gefur þeim um 240.000 kr. útborgaðar á mánuði. Hvað erum við að gera við því? Ekkert. Ekki neitt. Hæstv. fjármálaráðherra hefur jafnvel látið í veðri vaka að ekki væri rétt að hækka grunnframfærslu atvinnuleysisbóta vegna þess að það myndi sennilega ýta undir enn frekari leti landans sem myndi ekki nenna að vinna. Það er nöturlegt að þurfa að hlusta á slíkt.

Þriðji minni hluti getur ekki stutt frumvarp sem leggur til svo opna heimild sem raun ber vitni til stuðnings við einkarekið fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Það er ábyrgð þingsins að tryggja fjárheimildir til sértækra úrræða séu skýrar og skilyrtar. Þessi fjárheimild uppfyllir ekki þær kröfur að mínu mati.