150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:10]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við ræddum málið í nefndinni kom fram að Air Iceland Connect, eða raunverulega Flugfélag Íslands og sú kennitala sem er þar á bak við, og Icelandair Cargo hefðu á öðrum ársfjórðungi bara runnið inn í Icelandair. Þetta eru ekki sérstök dótturfélög inni í félaginu. Þess vegna er svolítið erfitt að aðskilja milli. Hitt atriðið er varðandi veð í hlutafé. Mig minnir að það hafi komið fram í umræðunni að hlutaféð sé 5,4 milljarðar. Ef það á að fara að taka að veði 15 milljarða í hlutafé — ég skil ekki þessa hugmyndafræði sem kom fram í fyrri ræðum, og eins og ég skildi ræðu hv. þingmanns, að taka veð í hlutafé í fyrirtækinu sem aðrir hluthafar eiga, hvernig það á að gerast í öllu þessu ferli.