150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er risamál. Það er ekki sjálfgefið að ríkisvaldið stígi inn í og veiti ríkisábyrgð til einkafyrirtækis. Þetta mál var upphaflega vanbúið að mínu mati, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefði langan tíma til að undirbúa það. Það var farið gegn samkeppnisreglum, fjárlaganefndin lagaði það. Við erum á fordæmalausum tímum, það þekkjum við, og þurfum að vera með fyrirtæki sem getur farið með okkur nokkuð óvænt strax inn í uppsveiflu, sem við vonum að verði sem allra fyrst. Innan fyrirtækisins er mannauður, þekking og reynsla. Í því felast verðmæti sem við þurfum að styðja við og tryggja.

Það er hins vegar umhugsunarefni hvernig ríkisstjórnin hefur undirbúið þetta mál án nokkurs samtals eða samráðs við stjórnarandstöðuna eða aðra í samfélaginu og hvernig ríkisstjórnin nálgast grundvallarprinsipp um samkeppni, almannahagsmuni, loftslagsmál o.fl. (Forseti hringir.) Þess vegna get ég ekki stutt þetta. Það er rétt svo að ég geti farið á gula takkann vegna handarbakavinnubragða ríkisstjórnarinnar.