150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra segir að tilgangurinn sé að tryggja flugsamgöngur og íslenska starfsstöð og lágmarka tap ríkisins. Um er að ræða 15 milljarða kr. ríkisábyrgð, fé skattgreiðenda. Virði félagsins í dag er 5 milljarðar. Það á að setja þarna inn 15 milljarða lánalínu, ríkisábyrgð, fé skattgreiðenda, en virði félagsins í dag er 5 milljarðar. Ef markaðurinn treystir sér ekki til þess að endurreisa félagið eins og það er sem er ekki skrýtið — eldgamlar flugvélar, miklar skuldir, óánægt starfsfólk á sama tíma og nýtt flugfélag er í burðarliðnum með glænýjar tveggja ára flugvélar, litlar skuldir og á eftir að rústa samkeppninni — (Forseti hringir.) hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við í alvörunni frekar að fara þessa leið? Nei, við bíðum. Ef hlutafjárútboðið tekst ekki, ef það tekst ekki án ríkisaðstoðar, getur ríkið stigið inn þá. Ef það stígur inn þá þarf það ekki að leggja til 15 milljarða, (Forseti hringir.) það getur keypt hluti á lægra verði og jafnvel lægra verði en ferðagjöf ferðamálaráðherra kostaði, minna en 1,5 milljarða. Það væri skynsamleg leið að fara með ríkisfé.