151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

Bjargráðasjóður.

[11:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið aftur og vænti góðs samstarfs við hv. þingmann um vinnu að því að Bjargráðasjóður fái bætur á fjárhagsstöðu sinni. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér þá er það rétt að ákveðið misræmi hefur komið upp í tollskrám, skránni sjálfri, og innflutningi. Mér er kunnugt um að fjármálaráðherra er með það mál í vinnslu og hefur sett af stað vinnu við að uppfæra tollskrána og reyna að eyða þeim götum sem þar hafa verið. Það er alveg ljóst að stærsti veikleikinn í þessum efnum, ef við getum talað um veikleika, er sá samningur sem gerður var í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á árinu 2015, sem þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, og þáverandi landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynntu í september það ár og fól í kjölfarið í sér stóraukinn innflutning. Forsendur fyrir þessum samningi eru að mínu mati brostnar og við höfum þess vegna hafið vinnu, ég og hæstv. utanríkisráðherra, við að undirbúa endurskoðun á þeim sama samningi.