151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[11:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að nefna að ég er meðflutningsmaður á þessu máli. Ég var í forsætisnefnd þegar málið var afgreitt þaðan og styð því málið. Aftur á móti vildi ég gera grein fyrir fyrirvörum mínum við það ágæta mál, vegna þess að það er lægsti sameiginlegi samnefnari sem allir nefndarmenn forsætisnefndar gátu komið sér saman um. Það er ekki þar með sagt að þeir séu allir sammála um það hvernig sé best að haga þessu.

Hv. 2. þm. Norðaust. og virðulegur forseti, Steingrímur J. Sigfússon, fór yfir meginatriði málsins áðan í ræðu sinni og tel ég óþarft að tvítaka það sem þar kom fram. Hins vegar kom þar fram einkenni frumvarpsins um að heimild til að þingmenn nýti fjarfundatækni til að mæta á nefndarfund er bundin skilyrðum. Þessi skilyrði vil ég gera að umtalsefni og fara aðeins út fyrir rammann um hvað það er sem við þurfum nauðsynlega að gera. Með því á ég við að fjarfundatækni, eins og reyndar tækniþróun almennt, sé eitthvað sem Alþingi eigi að hafa metnað til að nýta sem mest, ekki vegna þess að það sé hipp og kúl eða töff heldur vegna þess að það er gott fyrir starfið. Það bætir möguleika Alþingis á því að starfa vel. Það eykur möguleika landsbyggðarþingmanna og þingmanna almennt til að taka þátt í starfinu án þess að þurfa að eiga t.d. við samgöngur eða vera lengur fjarri fjölskyldu, vinum, nærumhverfi og kjósendum sínum en þeir þurfa.

Af einhverjum ástæðum er hér á Alþingi alveg óskapleg feimni við að gera best og stundum velti ég því fyrir mér hvað hafi orðið um viðhorfið sem var hér skömmu eftir hrunið 2008 og var þá í umræðunni þar áður, reyndar í einhverjum aðeins meiri flottræfilshætti, að Ísland yrði best í nýtingu tækni vegna þess að við hefðum fulla burði til þess. Ákveðna hluti liggur ekki fyrir Íslandi að verða best í að gera, segjum bílaframleiðslu eða eitthvað því um líkt eða ýmsar tegundir af iðnaði. Samfélög þurfa að vera stór til að takast á við suma hluti sómasamlega. Upplýsingatækni er ekki þar á meðal, virðulegi forseti. Stærð eða fjöldi landsmanna kemur því ekkert við hversu vel við getum staðið okkur í þeim geira. Það eina sem við þurfum að gera er að hafa viðhorfið, að nýta tæknina til fullnustu og átta okkur á því að tækifærin felast í nákvæmlega því.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að sumir þingmenn væru þeirrar skoðunar að hér mætti ekki fara of geyst, eins og það var orðað. Það er nákvæmlega svona orðalag sem ég velti fyrir mér, virðulegi forseti. Hvers vegna er þessi ótti við að fara of geyst í jafn einföldum hlut og að nýta nútímatækni til þingstarfa? Hvaðan kemur sú feimni? Hvað er svona varhugavert við að nota tölvur? Á þessu kjörtímabili hef ég þurft að eiga rökræður við aðra þingmenn um það hvort yfir höfuð eigi að heimila tölvur í þingsal, virðulegi forseti, og alltaf látið eins og þær séu einhver leiktæki. Þetta er vinnutæki, ég er að nota tölvu núna, ég nota tölvu úti í þingsal, ég nota reyndar tölvu til flestra minna verka innan sem utan þings. Af hverju erum við alltaf föst í einhverju hugarfari um að það að nýta tæknina sé einhvern veginn varhugavert og hættulegt? Þegar spurt er að þessu, virðulegi forseti, er afskaplega lítið um raunveruleg rök, það eru einhver tilfinningarök um að það þurfi að læra að gera þetta vel og svoleiðis. Við lærum að gera þetta vel með því að gera þetta. Það er þannig sem maður lærir á tölvur og aðra tækni, með því að nota hana. Hv. þingmenn og starfsfólk þingsins er væntanlega ekki að fara í eitthvert sérstakt nám til að gera okkur í framtíðinni reiðubúin til að nota fjarfundatækni meira. Og ef svo væri, hvernig væri slíkt nám? Það fælist jú í því að nota tæknina og engu öðru. Það eru ekkert meiri fræði á bak við að nýta þá tækni en það sem felst í því að nota hana. Af hverju notum við hana ekki bara? Hvers vegna þurfa að vera takmarkanir? Þær eru, með leyfi forseta:

„… þegar sérstaklega stendur á, svo sem af heilsufars- eða sóttvarnaástæðum, vegna samgöngutruflana eða veikinda aðstandenda eða þegar fundir eru haldnir utan starfsáætlunar þingsins.“

Af hverju? Af hverju má ekki bara vera almenn heimild sem formaður nefndar eða meiri hluti nefndar, hvernig svo sem fólk vill hafa það, ákveður bara beinlínis eftir geðþótta, beinlínis eftir því hvort nefndarmönnum finnst það gott eða ekki? Þá er alveg hægt að taka tillit til þess að sumu fólki finnst skemmtilegra eða þægilegra eða eitthvað að mæta einhvers staðar á einhvern tiltekinn stað, af ástæðum sem mér eru ekki augljósar, frekar en að nýta tæknina til að sækja fjarfundi.

Mér þætti vænt um að við myndum reyna að temja okkur aðeins meiri rökfestu í svona ákvörðunum almennt. Ég verð líka í því sambandi að benda á tækifærin sem eru tekin af borðinu með þessu. Það er vissulega hægt að láta sig dreyma og ég læt mig dreyma um að einn daginn verði þessi sérstaka takmörkun afnumin. En ég velti fyrir mér hvernig umræðan verður á þeim tíma. Verður hún ekki bara þannig að fólk spyr: Hvers vegna var þetta ekki gert árið 2020? Ég held að það verði engin svör þá nema að menn vildu ekki fara of geyst, vildu ekki hætta sér út í einhverjar öfgar eða eitthvað. Ég ætla nú ekki að herma eftir neinum þingmönnum þannig að þeir taki því ekki þannig að ég sé að leggja þeim orð í munn. Þetta er tilfinningin sem ég fæ af orðræðunni, að þetta sé eitthvað hættulegt, eitthvað varhugavert. Þetta er það bara ekki neitt, virðulegi forseti.

Ég heyri ekki betur en að það sé svo gott sem samdóma álit allra þingmanna sem hafa tekið þátt í fjarfundum að það hafi gengið þokkalega vel, ekki algerlega snurðulaust en almennt mjög vel og betur og betur eftir því sem fólk venst tækninni, lærir að nota hana, lærir að nota heyrnartól, svo ég nefni það nú hérna fyrir spjöld sögunnar og fleira í þeim dúr. Tæknin mun bara batna, ferlar til að biðja um orðið og þess háttar. Þetta er ekki vandamál, virðulegi forseti, og hefur ekki verið raunverulegt vandamál hingað til, jafnvel þótt flestir þingmenn séu að nota þessa tækni í fyrsta sinn, alla vega í þeim mæli sem við höfum verið að gera á þessu ári. Sum okkar hér á þingi erum vanari þessari tækni en önnur vegna þess að við höfum notað hana til samskipta við útlönd eða jafnvel bara í leik. Í Covid varð þekkt að halda hreinlega partí á netinu þar sem fólk kemur saman á hinum stafræna bar og þykir gaman að því.

Þessi tækni er nytsamleg, virðulegi forseti. Hún er einfaldlega nytsamleg í leik og starfi og daglegu lífi. Það er ekkert að því að nota hana meira. Það er ekkert varhugavert við það, það er ekki að fara of geyst að búa til almenna heimild fyrir Alþingi, æðstu stofnun lýðveldisins, til að nýta tæknina að því marki sem Alþingi eða nefndum þess sýnist. Það er engin hætta á ferðum og þetta er bara sama gamla feimnin við nýjungar sem er því miður einkennandi fyrir Alþingi af einhverjum rómantískum, tilfinningalegum ástæðum sem eru mér á köflum hulin ráðgáta þótt ég finni auðvitað til sambærilegra tilfinninga af og til sjálfur. Það sem ég geri hins vegar í þeim tilfellum, virðulegi forseti, er að ég hunsa þær tilfinningar ef ég finn og þekki rök sem trompa þær rómantísku tilfinningar. Við erum ekki hér til þess að vera fínt klædd og koma saman í einhverju herbergi. Það er hluti af starfinu og gott og vel, ég er ekki að kvarta undan því, ég er bara að segja: Það er ekki markmiðið með því að koma hingað. Við komum hingað til að vinna vel að löggjöf, til að skoða vel hugmyndirnar sem koma fram, rannsaka forsendurnar, tala við ytri aðila, leggja fram nefndarálit, halda ræður og greiða atkvæði. Ekkert af þessu, virðulegi forseti, ekki neitt af þessu, krefst þess að tveir þingmenn hittist nokkurn tímann í lífinu í eigin persónu, ekki neitt. Það er hægt að sinna þessu starfi algerlega og alfarið með nútímatækni án þess að tveir þingmenn hittist einu sinni. Ég er ekki að leggja það til hér og nú, það væri of geyst fyrir marga hv. þingmenn að ímynda sér það með góðu, alla vega þannig að þeim líði vel með það. En ég er bara að benda á að tæknin er sú að það er tæknilega mögulegt án þess að það komi neitt niður á starfinu. Það kemur kannski niður á því hvernig þingmenn vilja haga starfi sínu, hvernig þeim líður í vinnunni og allt það, það má vel vera, en ekki til að sinna starfinu. Meira að segja atkvæðagreiðslur gætum við haldið á netinu vegna þess að þær eru opinberar. Það þarf enga kosningaleynd á Alþingi, alla vega almennt ekki, reyndar af og til þegar við kjósum forseta og þess háttar, en meira að segja sú kosningaleynd er ekki meiri en sú að fólk getur horft hér á takkana hvert hjá öðru.

Tæknilegu áskoranirnar, virðulegi forseti, eru nákvæmlega engar. Áskoranirnar við að taka þetta upp í ferlum þingsins ætla ég ekki að segja að séu algjörlega engar vegna þess að ég er viss um að þetta kallar á breytt vinnulag, t.d. hjá starfsfólki þingsins og á einhvern hátt breytt vinnulag hjá þingmönnum eins og við þekkjum, en alvarlegra er það ekki. Mér finnst að þegar við erum að taka svona ákvarðanir þá eigum við ekki að festast í því hvernig hlutirnir hafi verið heldur hvernig þeir geti orðið betri og þeir geta orðið betri að þessu leyti með því að hafa almenna heimild sem formaður nefndar eða meiri hluti nefndar getur nýtt til að halda fjarfund af þeim ástæðum sem þeirri nefnd sýnist.

Mig langar einnig að fara aðeins út í hvernig þetta gæti bætt störf þingsins í miklu víðara samhengi. Alþingi Íslendinga er hér í þessu húsi í 101 Reykjavík. Reyndar held ég að formlega sé það í póstnúmeri 150, ef ég man rétt, en alla vega á því svæði sem fólk kallar 101 og mikið kvartað undan því, með réttu að mínu mati, að Alþingi sé tiltölulega Reykjavíkurmiðað batterí og skyldi engan undra vegna þess að hérna erum við jú, og meira að segja þingmenn sem starfa lengi á Alþingi og eru af landsbyggðinni, bjóða sig fram fyrir landsbyggðina, áttu eða eiga heima á landsbyggðinni, þurfa mikið að vera hér í Reykjavík og missa því auðvitað ákveðin tengsl við heimasvæði sitt. Fjarfundir myndu laga þetta. Látum okkur nú dreyma, við skulum eiga okkur smádraum hérna. Hvað ef það væri almennilegt skipulag á Alþingi, þar sem atkvæðagreiðslur væru að jafnaði á einhverjum einum degi vikunnar, hvað þá? Hvað ef við gætum raunverulega skipulagt þingræður þannig að þær færu eftir einhvers konar reiknireglu eða kvóta eða hverju sem er til þess að þingmenn gætu þá skipulagt ræður sínar og haldið þær á einhverjum tilteknum tímum en sinnt nefndarstörfum í kannski tvo, þrjá daga vikunnar í heild? Þá myndi þörf þingmanna til að koma hingað til Reykjavíkur minnka niður í kannski tvo, þrjá daga í viku í staðinn fyrir fjóra. Ég tel að það myndi muna um það. Þetta er auðvitað háð víðtækari breytingum en við komumst ekki í þær breytingar án þess að gefa almenna heimild hér.

Nú ætla ég að ganga lengra, ég vona að ég hafi ekki gengið fram af öllum þingmönnum, hvað ef þingræður væru haldnar á fjarfundum eða með fjartækni einhvers konar? Nú veit ég að einhverjir hv. þingmenn súpa hveljur, enda er ég að nálgast guðlastið í þingferlum. En hvað er því raunverulega til fyrirstöðu? Hvert er markmiðið með að halda þingræðu? Jú, það er til að koma sjónarmiðum á framfæri. Er eitthvað við internetið sem hindrar það? Nei, virðulegi forseti, þveröfugt, það er internetið sem gerir það kleift. Það er internetið sem gerir það að verkum að hvaða borgari sem er á Íslandi, eða svo gott sem, getur fylgst með umræðunni í beinni á símanum sínum og getur flett upp aftur í tímann. Það er gott, virðulegi forseti, það er tölvutæknin sem er nýtt til þess, til þeirra starfa. Það er engin ástæða og engin raunveruleg tæknileg ástæða fyrir því að við stöndum akkúrat á þessum punkti í akkúrat þessu húsi að segja þessa hluti. Ég gæti sagt þessa hluti inn í þessa myndavél sem ég er með fyrir framan mig, ég gæti notað símann minn til þess.

Göngum lengra, virðulegi forseti, guðlastinu er ekki lokið. Hvað með atkvæðagreiðslur? Hvers vegna þurfum við að mæta hingað inn í þetta herbergi, inn í þennan sal í þessu húsi í 101 Reykjavík, til að greiða atkvæði? Þetta eru ekki leynilegar atkvæðagreiðslur. Ef eitthvað myndi klikka í öryggi eða eitthvað því um líkt þá myndi þingmaðurinn einfaldlega hringja og láta vita af því. Atkvæðið mitt er ekki alveg í lagi, myndi viðkomandi hv. þingmaður segja og þá væri það bara lagað. Þetta er ekkert vandamál, virðulegur forseti, nema vegna þess að Alþingi þarf alltaf að búa til einhver vandamál til að halda í einhverjar gamla, rómantíska, tilfinningaþrungna mynd um það hvernig hlutirnir séu „eðlilegir“ og vona ég nú að því viðhorfi fari svolítið að linna hér á Alþingi því að ég vil meina, í öllum mínum ótæmandi hroka, að hinn almenni borgari sé kominn lengra en þetta, að atvinnulífið sé komið lengra en þetta, að félagasamtök séu komin lengra en þetta og mér finnst svo leiðinlegt að Alþingi, sem er æðsta stofnun lýðveldisins, hafi þann orðstír, með réttu, að vera langoftast einhvern veginn eftir á í þessum atriðum. Það er ekki bara í þessu atriði sem ég velti fyrir mér spurningunni, heldur oftar og oftar eftir því sem ég vinn hér lengur, því ég sé tækifæri og spurningin er: Af hverju erum við ekki best í þessu?

(Forseti (ÞorS): Í anda þeirrar rómantíkur sem kom fram í ræðu þingmannsins vill forseti minna á að þingmálið er íslenska.)