151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

þingsköp Alþingis.

8. mál
[11:50]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að lengja þessa umræðu, enda hæstv. fjármálaráðherra að stikla hér eftir að komast í að mæla fyrir máli sínu, en ég held ég verði að bera hönd fyrir höfuð Alþingis. Mér finnst ekki rétt að stilla þessu þannig upp að hér sé um að ræða eitthvert forneskjulegt hugarfar, ómálefnalega afturhaldssemi eða að Alþingi sé hrætt við nýjungar og breytingar. Það er reyndar ekki svo að Píratar hafi einkarétt á því að vera í nútímanum í þeim efnum og kunna á tölvur. Það er bara ekki þannig. Alþingi á ágætissögu í þeim efnum og er enn í dag að mínu mati framsækið. Alþingi var fyrsta þjóðþingið sem tók upp hljóðritun á ræðum í staðinn fyrir að þær væru skrifaðar niður. Þegar núverandi atkvæðagreiðslukerfi og stýran kom til sögunnar var það með því framsæknasta sem þá þekktist. Það er vissulega rétt að dregist hefur úr hömlu að endurnýja ýmsan slíkan búnað en það er nákvæmlega verið að gera það núna.

Alþingi hefur veitt mikla fjármuni undanfarin ár í að ljósleiðaravæða Ísland. Það er ekki afturhaldssemi, það er ekki forneskjulegt. Það er einmitt gríðarlega mikilvæg undirstaða þess að þjóðin öll geti nýtt sér nútímatækni í þessum efnum. Við erum að fjárfesta akkúrat sem við tölum í uppfærslu hugbúnaðar, eins og hv. þingmaður veit, nýrri þingmannagátt o.fl. Það er í undirbúningi að endurnýja algerlega stafrænan búnað hér í salnum og færa hann til þess besta sem þekkist og reyndar salinn allan í heild vonandi. Þetta er líka í góðum takti við áherslur stjórnvalda, áherslur framkvæmdarvaldsins, um Stafrænt Ísland og hvað það nú heitir sem fjármálaráðherra gæti sagt okkur ýmislegt um. Síðast en ekki síst höfum við fjárfest mikið undanfarna mánuði í nýjum búnaði, vissulega vegna heimsfaraldursins, eða það hefur ýtt við okkur, en það er búið að stórefla getu Alþingis til að halda góða fjarfundi í vönduðum búnaði o.s.frv.

Af hverju einhverjar takmarkanir? spyr hv. þingmaður. Er það bara afturhaldssemi eða íhaldssemi? Nei, það hafa verið færð fram málefnaleg rök fyrir því að vissa hluti sé erfitt að leysa á slíkum fjarfundum, t.d. meðferð trúnaðarupplýsinga, umræður í trúnaði þegar menn þreifa fyrir sér kannski með pólitískar málamiðlanir, móttöku gesta sem hafa trúnaðarupplýsingar fram að færa og fleira í þeim dúr. Þetta gerir það að verkum (Forseti hringir.) að erfitt er að sjá fyrir sér annað en að það verði í framtíðinni að vera einhver blanda fjarfunda og hefðbundinna funda.