151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:22]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er ekki í öfundsverðri stöðu, ég átta mig alveg á því. Atvinnuleysi er okkar helsta áhyggjuefni í dag. Nú eru um 20.000 Íslendingar atvinnulausir og þeim fer fjölgandi. Ég velti því fyrir mér, í andsvari mínu til ráðherra, hvort ekki hefði mátt gera betur í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki ríkisstjórnarinnar. Við sjáum að einungis 1% af landsframleiðslu á að fara í það átak. Sömuleiðis gerir frumvarpið ráð fyrir að atvinnuleysi lækki einungis um 1 prósentustig á næsta ári. Aftur varpa ég fram þessari spurningu: Þurfum við ekki að gera meira? Að sjálfsögðu veit ég vel að hallinn er mikill en á þessum tíma getur verið skynsamlegt að verja aðeins meiri peningum til að skapa peninga. Með því að skapa störf, í gegnum fjárfestingu og nýsköpun, fær ríkissjóður auknar tekjur til baka.