151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af mörgum ástæðum er mikilvægt að við förum af krafti í fjárfestinguna. Við höfum hér á fyrri stigum aukið fjárfestingarstigið. Við fórum í sérstakt átak vegna þess að horfur voru um góðar heimtur af arði opinberra félaga til ríkisins og við ákváðum að auka við í samgöngumál vegna þess og við höfum verið í skammtímaátaksverkefnum. En hér erum við að kynna til sögunnar miklu stærra fjárfestingarverkefni en fyrr á kjörtímabilinu og erum með í kringum 1% aukningu. Það sem ég vil benda á er að það er ekki lítið verkefni — segjum að við værum ekki að tala um aukningu upp á 1% heldur 2% — að bæta öðrum 30 milljörðum á útgjaldahliðina á næsta ári. Þetta er ekki bara spurning um afkomu á næsta ári og fjármögnun, þetta er líka spurning um að koma þessum verkefnum öllum fyrir á einu ári, á tólf mánuðum.