151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Margt af því sem við höfum verið að gera á þessu ári eru stórar aðgerðir að umfangi en þær kosta ríkissjóð ekki endilega gjaldamegin. Við getum tekið sem dæmi frestun á staðgreiðslu, frestun á greiðslu opinberra gjalda. Við aukum svigrúmið fyrir atvinnulífið um fleiri milljarða en eini kostnaður ríkissjóðs er hugsanlegt tap vegna þess að menn komist ekki í gegnum erfiða tíma og svo fjármagnskostnaður. Þannig verður að meta umfangið eftir eðli aðgerðanna hverju sinni.

Ég segi bara aftur: Það er auðvelt að standa hér núna og segja að auðvitað eigi bara að láta sjálfvirku sveiflujafnarana virka. En það er alls ekki sjálfsagt að ríkisstjórnir geri það. Það er sérstök ákvörðun okkar að leyfa einmitt því að gerast. Margar aðrar ríkisstjórnir eru að fara aðrar leiðir og íslenskar ríkisstjórnir hafa farið aðrar leiðir. Það er flokkunaratriði að segja að sérstakar aðgerðir séu þessar og sjálfvirku sveiflujafnararnir séu svona. (Forseti hringir.) En það er samt sjálfstæð ákvörðun að leyfa þessu að ganga svona fram.