151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:20]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nóg í svona ástandi að verja 1% af landsframleiðslu í sérstakt fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar. Það er tilfellið. Það er ekki nóg að viðbótin nýsköpun sé einungis 0,3% af landsframleiðslu. Það er ekki nóg, herra forseti, að viðbótin umhverfismál, hin svokallaða græna bylting, fái 0,1% af landsframleiðslu. Það er fullkomlega rétt að bera þetta saman við landsframleiðslu. Við tölum oft um þetta. Sá samanburður er málefnalegur. Þetta er ekki nóg til að mæta einni dýpstu kreppu í hundrað ár. Það er ekki nóg fyrir einstakling sem missir vinnuna að lifa á 240.000 kr. Hann nær ekki endum saman. Þess vegna er ég ósammála mörgu í þessu frumvarpi þegar kemur að umfangi aðgerða sem lúta að nýsköpun, grænu málunum, fjárfestingu og síðan þegar kemur að þeim hópi sem missir vinnuna.

Annað sem ég er ósammála í frumvarpinu er, og ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því, að enn þá er aðhaldskrafan á sjúkrahúsin og skólana sem ég gagnrýndi í þingstubbnum. Ekki mikil, ég veit það alveg. En af hverju er sem dæmi enn þá 0,5% aðhaldskrafa á þessum Covid tíma? Mér finnst að menn geti gert aðhaldskröfuna árið eftir eða þar á eftir. Það er því margt gagnrýnisvert hérna.

Auðvitað veit ég alveg að þingmenn úr öllum flokkum eru að reyna að gera sitt besta og ég veit að hallinn er mikill. Að sjálfsögðu veit ég það. En ég segi að miðað við stöðuna sem íslenskt hagkerfi er í núna þurfum við að gera meira. Það skapar tekjur á móti. Þegar við búum til starf, hvort sem það er í opinbera geiranum eða einkageiranum, fær ríkið tekjur á móti. Þumalputtareglan er svona þriðjungur. (Forseti hringir.) Stundum kostar peninga að búa til pening og þess vegna held ég að við ættum að vera aðeins metnaðarfyllri í þessari fjárlagagerð.