151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Margt var athyglisvert og án vafa er margt af því sem hv. þingmaður kom inn á og nefndi verkefni nefndarinnar fram undan að fjalla um. Ég hygg að hv. þingmaður hafi eitthvað verið að ræða fjölónæmar bakteríur og týndi orðinu hér, það var einhvern veginn fast í kollinum, svona áður en ég kem að andsvarinu.

Hv. þingmaður kom inn á sjálfvirka sveiflujafnara. Við notum þetta mikið í umræðunni, sjálfvirka sveiflujafnara. Ég er ósammála hv. þingmanni að einu leyti. Við erum auðvitað sammála um að það er rétt og skynsamleg hagfræði að leyfa þeim, eins og verið er að gera, að vinna af fullum krafti í gegnum ríkisfjármálin og beita þannig ríkisfjármálunum. Og af því að hv. þingmaður segir að þetta sé bara sjálfsagt mál þá hefur sagan kennt okkur að það er ekki alltaf. Þetta er á tekjuhliðina. Skattarnir minnka við minnkandi umsvif þannig að tekjur ríkissjóðs minnka, sem er kannski hið snögga tekjufall sem ríkissjóður verður fyrir eins og allt hagkerfið og er í raun og veru ástæða hallans af því að við erum að halda útgjaldastiginu. Þar sem þetta er á tekjuhliðina vil ég jafnframt draga fram að við erum að lögfesta skattkerfisbreytingar á til að mynda tekjuskatti sem koma að fullu inn á næsta ári. Það má alveg velta fyrir sér hvort menn hefðu viljað hægja á því eða ekki. Það er alltaf ákvörðun.

Ég ætla að koma síðan að bótakerfinu sem er útgjaldamegin í seinna andsvari. Ég er því ekki sammála hv. þingmanni að þetta sé sjálfsagt mál.