151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Uppskriftin er alla vega að minnka álögur og auka útgjöld. Þannig er almenna uppskriftin. Ríkisstjórnin er að fara eftir þeirri almennu uppskrift sem hefur vissulega ekki verið gert áður. Síðast þegar við fórum í gegnum kreppu var rifrildi um það hvort niðurskurður eða þessi aðferð ætti að vera rétta aðferðin til að beita. Við erum búin að læra annað síðan þá. Hvað er hins vegar gert við þessar aðgerðir? Það sem skiptir aðalmáli er hvernig álögur eru lækkaðar og hvernig útgjöld eru aukin. Mjög stór hluti af þessu eru sjálfvirku kerfin okkar eins og atvinnuleysisbætur o.s.frv. Þau útgjöld lenda á hverjum sem er. Sérstakar ákvarðanir um það hvernig álögur eru lækkaðar eru gagnrýndar á mismunandi hátt. Það er hægt að gagnrýna að það eigi t.d. að verðbólgutengja fjármagnstekjuskatt, að verið sé sérstaklega að velja þann skattstofn til að minnka álögur. Eða erfðafjárskattinn, það er áhugavert að verið sé að velja hann umfram eitthvað annað. Þetta er eitthvað sem við getum rætt um á einn eða annan veg.

Ég er bara að segja almennt að þessi aðferðafræði, lækkun álagna og hækkun útgjalda, er rétt aðferðafræði, en hvernig það er nánar stillt af getum við síðan rifist um. Ég tek hins vegar til hliðar þau kerfi sem eru þegar upp sett til að glíma við sveiflurnar, með þessum sjálfvirka sveiflujafnara, sem á ekki að þurfa að taka sérstaka ákvörðun um að beita. Ef stjórnvöld ákveða að stilla það á einhvern hátt, eins og t.d. að bæta við tekjutengingu, þá er það skoðunarvert og er aukaaðgerð í rauninni ofan á hitt. En í fjárlagafrumvarpinu er því stillt þannig upp að það séu 35 milljarðar í sérstakar mótvægisaðgerðir, það horfi ég á, og er það sem fjárlagafrumvarpið segir.