151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að klára aðeins varðandi starf nefndarinnar fram undan og það að nýta tímann og senda spurningar á undan og á eftir. Við gerum það gjarnan. Við mættum kannski oftar sendar spurningar á undan. Við höfum gert það og það hefur alltaf nýst vel. Svo kemur auðvitað upp í samtali á fundum okkar eitthvað sem við viljum vita frekar um. Þá biðjum við gjarnan um minnisblað og sendum spurningar til að nýta tímann betur svo að meira komi út úr fundinum.

Varðandi gagnsæið fékk ég fyrir þessa umræðu aðstoð ritara til að taka saman áhrif aðgerðanna. Ég nýtti það reyndar ekki í ræðu minni. Það eru miklar fjárhæðir í fjáraukalagafrumvarpinu. Þetta snertir mismunandi málefnasvið og er ansi fjölbreytt. Fjármálaráð leiðbeindi okkur um að við þyrftum að fylgja vel eftir gagnsæinu, utanumhaldinu um þessar aðgerðir, markmiðinu með þeim og áhrifunum. Það er mjög mikilvægt og er auðvitað bara verkefnið fram undan. Ég hef ekki séð neina heildstæða úttekt á því. Það skal viðurkennast.

Ég staðfesti það bara hér að ég tek undir með hv. þingmanni. Við verðum að kalla eftir og draga fram hvaða fjármunir fóru í hvað, hvers vegna, hvaða árangri það átti að skila og hvort það skilaði þeim árangri. Ég held að lærdómurinn af því sé líka mikilvægur til framtíðar litið. (BLG: Heyr, heyr.)