151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að formaður fjárlaganefndar sitji hér í salnum á meðan ég fer með mína ræðu. Hefur forseti komið þeirri beiðni minni áleiðis?

(Forseti (BN): Já, forseti gerði það.)

Og hvernig var tekið í þá beiðni?

(Forseti (BN): Það hefur ekki borist svar enn þá.)

Ekki borist svar. Það er nú svolítið slæmt því ég get illa haldið áfram nema að ég viti að hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, sé að hlusta. Varla er formaður nefndarinnar farinn úr húsi þegar við ræðum þetta mikilvæga stefnuplagg sem hann hefur síðan forystu um að vinna með.

(Forseti (BN): Forseti heldur að hv. þingmaður sé í húsi. Hann er iðulega í þessu húsi alla daga þannig að það kann að vera að hann heyri ræðuna þótt hann sé ekki í salnum. Ég tel rétt að hv. þingmaður haldi samt áfram ræðunni.)

Ég get þá í versta falli sent honum hlekkinn í gegnum netið.

Herra forseti. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd er búinn að fara yfir stóru myndina og stóru áherslur okkar í Samfylkingunni og ég þarf ekki að endurtaka það hér. Ég vil þó nefna nokkur atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd fari yfir og taki til sérstakrar skoðunar því að það er svo, herra forseti, að þessi kreppa leggst mjög misjafnlega á fólkið í landinu og fyrirtækin. Sum heimili eru í góðum málum og hafa ekki orðið fyrir miklu tekjufalli. Sum sveitarfélög eru meira að segja í þokkalegum málum og hafa ekki orðið fyrir miklu tekjufalli. En síðan eru það önnur heimili og önnur fyrirtæki og önnur sveitarfélög sem bera þyngstu byrðarnar í þessari kreppu. Þess vegna er svo mikilvægt að við beinum sjónum okkar þangað.

Ég vil byrja á að ræða um stöðu sveitarfélaganna. Útsvarstekjur hafa í sumum sveitarfélögum fallið mjög mikið, útsvarið sem á að standa undir nærþjónustunni, útsvarið sem á að standa undir þjónustu við fatlaða, við börnin og við eldri borgara og allt það. Í þeim sveitarfélögum þar sem útsvarið hefur fallið mest er einmitt mesta álagið á þjónustu sveitarfélaganna. Þar er mesta álagið í þessu ástandi á félagsþjónustuna, á barnaverndina og utanumhald til að rjúfa félagslega einangrun hjá þeim sem eldri eru. Annar tekjustofn, jöfnunarsjóðurinn, hefur líka fallið vegna þess að hann er tengdur tekjum ríkissjóðs. Ef tekjur ríkissjóðs falla fer jöfnunarsjóðurinn niður. Síðan er þriðji tekjustofninn fasteignagjöld, sem kannski haggast minna, en þó hefur verið kallað eftir því að sveitarfélögin lækki gjöld á meðan þessir erfiðleikar ganga yfir. Síðan er auðvitað krafa, sem er líka eðlileg í þessu ástandi, að sveitarfélögin dragi ekki saman í framkvæmdum heldur haldi áfram að byggja skóla og laga til og halda byggingum við til að halda uppi atvinnustigi líka.

Þegar við í Samfylkingunni höfum talað um þetta við stjórnarliða, hvort sem það eru hæstv. ráðherrar eða hv. þingmenn, eru svörin einhvern veginn á þá leið að sveitarfélögin verði bara að skuldsetja sig eins og ríkissjóður. Það verði bara að vera þannig. En það er mjög klént svar vegna þess að það er auðvitað mismunandi eftir sveitarfélögum hver lánakjörin eru. Það má vera að þau séu þokkaleg hjá borginni og stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, en það er ekki þannig víða um land. Ef staðan er þannig úti á landi í minni sveitarfélögum að atvinna er af skornum skammti og þjónusta og félagsþjónustan og nærþjónustan einnig við börnin og fólkið sem þarf á henni að halda þá flytur fólk burtu.

Þess vegna segi ég: Ef hæstv. ríkisstjórn lítur ekki á vanda sveitarfélaganna og kemur ekki með sérstakan stuðning þar, einkum á þeim stöðum þar sem vandinn er mestur, er það ekki bara slæm velferðarstefna heldur arfavitlaus byggðastefna því fólk mun auðvitað fara og færa sig af þeim svæðum þar sem hvorki vinnu né þjónustu er að fá.

Ef við horfum út til norrænu ríkjanna sjáum við að frændur okkar á Norðurlöndum eru að gera vel við sveitarfélögin og taka utan um þau og íbúana til að sjá til þess að þjónusta þeirra raskist ekki á þessum erfiðum tímum. Ég vona að hv. þingmenn sem hér sitja og eru í fjárlaganefnd taki málefni sveitarfélaganna til sérstakrar skoðunar og hafi í huga hvaða fólk það er sem þarf á þeirra þjónustu að halda núna á þessum erfiðu tímum og þeir horfi sérstaklega á landshluta. Ég get nefnt Suðurnesin af því að það er bara svo augljóst dæmi um landshluta sem þarf að beina sjónum sínum að varðandi þjónustu sveitarfélaganna, að félagsþjónustunni, barnaverndinni, skólastarfinu og þjónustu við fatlaða einstaklinga og þá sem eldri eru.

Herra forseti. Það eru sveitarfélögin sem ég bið þingmenn og fulltrúa í hv. fjárlaganefnd að skoða sérstaklega.

Það sem ég vil nefna númer tvö eru lífeyrisþegar. Í fjárlagafrumvarpinu er miðað við að ellilífeyrir og örorku- og endurhæfingarlífeyri hækki um 3,6%. Það er auðvitað mun minna en hefur verið í launaþróun og með því skrefi mun enn draga í sundur á milli þeirra sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar og þeirra sem eru á lægstu laununum eða launatekjutryggingunni. Það eru 19.284 öryrkjar sem eiga rétt á bótum og af þeim eru 5.681 með heimilisuppbót. Þetta eru nýlegustu upplýsingarnar frá Öryrkjabandalaginu. En þegar menn tala hér um þær greiðslur sem öryrkjar þurfa að reiða sig á er alltaf talað um grunnlífeyri plús heimilisuppbót. En heimilisuppbót er félagsleg aðstoð. Grunnlífeyririnn er aðeins 255.000 kr. á árinu 2020 og með þeirri hækkun sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu fer þessi greiðsla upp í rétt rúmar 265.000 kr. á næsta ári. Á meðan fer launatryggingin eða lægstu launin upp í 351.000 kr. á mánuði 1. janúar 2021, þannig að það dregur enn í sundur.

Auk þess hefur frítekjumark vegna launatekna staðið í stað í tíu ár, krónutalan sjálf. Hún var 109.000 kr. árið 2010 og hún er það enn. Ef þessi upphæð hefði fylgt launaþróun ætti frítekjumarkið að vera um 200.000 kr. Það er því augljóst, forseti, að það verður að skoða þetta kerfi og það er augljóst að það er innbyggt óréttlæti í þetta kerfi. Og ef ég skil fjárlagafrumvarpið rétt á ekki að stíga nein önnur skref en bara þau sem tekin hafa verið á undanförnum árum.

Þetta var um örorku og endurhæfingarlífeyri. Hitt er svo annað sem eru fjárlögin og eldri borgarar. Finnur Birgisson hefur skrifað um þau mál og útskýrt á samfélagsmiðlum. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna í hann þegar hann segir:

„Undanfarið hef ég verið að birta hér samanburð á þróun ellilífeyris síðustu 10 ár annars vegar og þróun lágmarkslauna og launavísitölu hins vegar. Í lögum um almannatryggingar er skýrt kveðið á um að við árlegar ákvarðanir um breytingar á grunnupphæðum hjá almannatryggingum skuli tekið mið af launaþróun. Upplýsingarnar sem ég hef sett fram sýna þó ótvírætt að þetta ákvæði hefur verið brotið í sífellu, ár eftir ár, þannig að mikið misgengi er orðið milli lífeyrisins og launanna. Ef einhver skyldi halda að þetta snúist um eitthvert smáræði eða minni háttar ónákvæmni, þá er það mikill misskilningur. Þetta snýst um háar upphæðir sem skipta sköpum fyrir þá sem eiga allt sitt undir greiðslum almannatrygginga. Í tölum lítur þetta svona út:

Árið 2010 var ellilífeyririnn 153.500 kr. á mánuði, en í ár er hann 256.800 kr. Ef hann hefði hækkað eins og launavísitalan væri hann núna 297.600 kr. eða 40.800 kr. hærri. Ef hann hefði hækkað eins og lægstu laun væri hann núna 313.500 kr. eða heilum 56.700 kr. hærri!

Það munar um minna en slíkar upphæðir hjá fólki sem hefur ekki annað til að lifa af en þessar greiðslur frá TR.“

Finnur Birgisson sýnir hvernig munurinn á milli lífeyris og lægstu launa hefur alltaf breikkað og breikkað á síðastliðnum tíu árum. Það þarf að stöðva þá þróun.

Ég vona að fjárlaganefnd velti því fyrir sér, sem sum ríki hafa gert, hvort það væri ekki ráð á þessum erfiðu tímum, þó ekki væri nema tímabundið í fjóra mánuði eða svo, að þeir sem eru á þessum lægstu bótum fengju eingreiðslu. Þetta hafa Ástralir gert með góðum árangri. Ég veit að þeirra kerfi er öðruvísi en okkar en þeir settu fram eingreiðslur fyrir atvinnulausa og fyrir lífeyrisþega, ekki bara til þess að heimili þeirra fengju notið auranna heldur líka til þess að hagkerfið fengi notið neyslu þeirra. Það kæmi þá einhverjum hjólum af stað. Bæði heimilin og hagkerfið myndu græða á því að við tækjum okkur til og setjum eingreiðslu til þeirra sem eru á allra lægstu greiðslunum.

Það er auðvitað skammarlegt fyrir okkur, þessa ríku þjóð, að við skulum ekki sjá betur fyrir ástandinu. Ég veit alveg að núna er erfiður tími hjá ríkissjóði en það er ekki þar með sagt að við eigum ekki að horfa á þetta vandamál og að við eigum ekki að plana eitthvað inn í framtíðina um hvernig við viljum taka á þessu máli, hvernig við viljum auka jöfnuð. Ef við ætlum að gera það, ef við viljum auka jöfnuð, þá eigum við að láta bæturnar fylgja launaþróun. Það er það sem við eigum að gera ef við viljum ekki að það dragi í sundur og ég á við alvörulaunaþróun. Öryrkjar hafa bent á það að við alþingismenn fáum greiðslu aftur í tímann. Launaþróunin er metin og við fáum að njóta hinnar raunverulegu launaþróunar á meðan öryrkjar eru alltaf á einhverri áætlun sem er ekki leiðrétt og það veldur líka skekkju í þessu öllu saman.

Að lokum, forseti, vil ég ræða um atvinnuleysi og atvinnuleysisbætur. Hv. þingmaður sem stóð í þessum ræðustól á undan mér talaði um að það væri verið að greiða hvorki meira né minna en 100 milljarða í atvinnuleysisbætur. Mér fannst einhvern veginn tónninn vera eins og það væri nú aldeilis rausnarlegt af hæstv. ríkisstjórn (Gripið fram í.) og stjórnarliðum. Hv. þingmaður mótmælir og ég treysti því að hann komi í andsvar við mig á eftir. En það er auðvitað vegna þess að launamenn hafa unnið sér þennan rétt. Þeir hafa unnið sér þennan rétt og það eru mjög margir launamenn atvinnulausir og þess vegna er upphæðin svona há.

Herra forseti. Mig langar að renna yfir atvinnuleysistölur. Nýjustu atvinnuleysistölurnar sem eru birtar hjá Vinnumálastofnun sýna að mesta atvinnuleysið er á Suðurnesjum, um 18%. Það er 18% í þeim landshluta þar sem búa rétt tæplega 30.000 manns. Samtals er atvinnuleysi á landinu öllu 9,4%. Síðan er það mjög misjafnt eftir landshlutum. Á Vestfjörðum mælist það 3,2%, á Norðurlandi vestra 3,7%, á Austurlandi 4,2% og á höfuðborgarsvæðinu 9,9% og þar er auðvitað allur fjöldinn undir. Það eru því þúsundir manna á höfuðborgarsvæðinu atvinnulaus.

En eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá leggst þessi kreppa, þessi atvinnukreppa, misjafnlega á landsvæði og auðvitað atvinnugreinar og, herra forseti, á kynin. Það er t.d. þannig á Suðurnesjum að af 18% heildaratvinnuleysi er 21% atvinnuleysi meðal kvenna en 16,1% atvinnuleysi meðal karla. Og í næstum öllum landshlutum er atvinnuleysi meðal kvenna meira en karla. Því er það svo skrýtið að aðgerðirnar sem ríkisstjórnin grípur til eru að mestu hefðbundin karlastörf. Ég vil biðja hv. formann fjárlaganefndar að taka þetta upp í nefndinni og fara yfir það. Auðvitað þurfum við að vinna gegn atvinnuleysi karla en við verðum líka að vinna gegn atvinnuleysi kvenna.

Þegar ég fór yfir þetta með hæstv. forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag og ég benti á, líkt og gert er í fjárlagafrumvarpinu sjálfu á bls. 120, að hér væri verið að ýta undir misrétti hvað þetta varðar á milli karla og kvenna, þá fannst henni þetta nú afskaplega fyndið, hlægilegt, ætti ekki við rök að styðjast. En ég vil, herra forseti, lesa það sem stendur einmitt um þetta í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil draga það fram um leið að sem betur fer var það svo að þegar við gengum frá lögum um opinber fjármál þá gerðum við það að lögum að meta þyrfti fjárlagafrumvörp eftir áhrifum á kynin, sem betur fer, af því að það er fullt af tölum í þessu frumvarpi sem segja okkur lítið um það. Þess vegna er mikilvægt að taka tölurnar og meta hvort það er verið að auka á kynjamisrétti, láta það standa í stað eða vinna gegn ójafnrétti.

Hér stendur á bls. 120 í niðurstöðukafla í fjárlagafrumvarpinu þar sem er fjallað um þetta, með leyfi forseta:

„Í ljósi aukins atvinnuleysis hafa ný atvinnutækifæri mikið vægi þegar lagt er mat á áhrif frumvarpsins á jafnrétti en skráð atvinnuleysi á landinu öllu í ágúst 2020 var örlítið hærra meðal kvenna en karla, hvort sem hlutabætur er taldar með eða ekki. Niðurstaða greiningarinnar er að mikill meiri hluti starfa sem skapast vegna aukinna útgjalda verður unninn af körlum og munar þar mest um fjárfestingarátakið sem nemur tæpum 30% af nýjum og auknum útgjöldum. Störf í opinberri þjónustu, þar sem konur eru í meiri hluta, eru varin með því að fara ekki í miklar aðhaldsráðstafanir og er það vel, einnig m.t.t. umönnunarhagkerfisins. Þessi ráðstöfun skapar þó ekki ný störf fyrir þær konur sem þegar eru atvinnulausar. Meiri hluti annarra ráðstafana, sem mögulegt er að leggja mat á, er talinn stuðla að óbreyttu ástandi þar sem fyrir er kynjahalli, í flestum tilfellum körlum í vil.“

Þannig að það er með opin augun sem hæstv. ríkisstjórn fer fram með þessum hætti, að koma með nýja peninga til þess að vinna gegn atvinnuleysi og að mestu fara þeir í að vinna gegn atvinnuleysi karla.

Auðvitað vitum við að það eru karlar sem vinna að mestu leyti við að byggja byggingar og búa til vegi og við viðhald á byggingum. Þegar fjárfestingaráætlunin er sett í gang fara u.þ.b. 85% í hefðbundin karlastörf. En það er líka þannig að með átakinu Allir vinna er nánast eingöngu einblínt á hefðbundin karlastörf. Þar er verið að ýta undir viðskipti við iðnaðarmenn og það er bara ágætt. En það hefði mátt líta til kvennastétta og ekki bara hefði mátt, heldur er nauðsynlegt að gera það þegar vinna á gegn atvinnuleysi á landinu. Það er auðvitað það sem skiptir máli í þessari stöðu. Ég segi bara eins og formaður Framsóknarflokksins sagði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, það er auðvitað atvinna, atvinna, atvinna. Við eigum að skapa störf og vinna okkur þannig út úr þessari kreppu. Óvissan er algjör á meðan við erum ekki komin með bóluefni. Við vitum það. En við þurfum samt sem áður að taka skrefið og vinna gegn atvinnuleysi, beina sjónum okkar sérstaklega að þeim svæðum sem verst verða úti, gæta vel að börnum og þeim sem veikast standa fyrir og láta ekki eins og steinsteypan muni öllu bjarga.