151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Komið hefur í ljós ósamræmi á milli talna um útflutning landbúnaðarvara frá ESB til landsins og tölum um innflutning í gögnum Hagstofu Íslands. Þessi munur kallar á skýringar og er það í raun mjög alvarlegt ef satt reynist. Samkvæmt opinberum gögnum frá ESB virðast tölur um útflutning landbúnaðarvara frá ESB til Íslands hærri en kemur fram í innflutningsgögnum Hagstofunnar. Hér er um töluverðan mun að ræða og telst jafnvel í hundruðum tonna í ákveðnum tollflokkum á þriggja ára tímabili, t.d. er misræmi á innflutningi á unnum kjötvörum um 1.700 tonn. Hér er að rísa heilu fjallgarðarnir á milli þess trausts sem ætti að ríkja í milliríkjasamningum og eftirliti með þeim. Þetta misræmi á ekki að vera til staðar í landbúnaðarvörum og eru allar reglur skýrar hvað varðar innflutning á lægri og engum tollum. Hvað er því í gangi?

Hér eru miklir hagsmunir í húfi, störf innan lands auk tapaðra skatttekna fyrir ríkissjóð. Það eru því sameiginlegir hagsmunir bænda, neytenda og innflutningsaðila að það ríki heiðarleiki um viðskipti sem þegar hefur verið samið um. Rétt skal vera rétt. Það er óásættanlegt að hér sé verið að brjóta þær leikreglur sem eiga að ríkja og bæði lög og reglur eru skýrar með það. Það er ekki nóg að benda á brostnar forsendur samninga. Það eru samningar í gildi og ef ekki er farið eftir þeim er verið að brjóta lög og það á ekki að líða. Það er ekki nóg að setja á stofn starfshóp, það verður að fara í þetta. Hér er verið að brjóta lög. Ef manneskja tekur sér eitt læri í Hagkaup er hún kærð umsvifalaust og fær jafnvel fangelsisvist. En ekki er hægt að mynda starfshóp um þetta atriði. Það verður bara ganga í þetta.

Íslenskir bændur verða fyrir miklu tjóni sem má rekja til skorts á eftirliti með innflutningi. Slakt eftirlit veldur einnig tekjutapi fyrir ríkissjóð. Óvissan skapar tortryggni og því verður varla séð að ástæða sé til að slaka á frekari tollvernd á landbúnaðarvörum. Því eru allir að tapa og ekki síst neytendur. Hvar er eftirlitið?