151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við höfum frekar skamman tíma í fyrri umr. og ég ætla að reyna að nota hann vel. Auðvitað skarast þetta svolítið á við umræðuna í gær um fjárlagafrumvarpið, en gott og vel. Það fyrsta sem ég vil vekja athygli á þegar við lesum þessa fjármálaáætlun til fimm ára er að forsendur áætlunarinnar eru fullbjartsýnar að mínu mati. Þetta höfum við bent á áður þegar kemur að fjárlögum, fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Þó að við séum að vonast eftir betri stöðu í hagkerfinu þá þurfa spár okkar að vera raunsæjar, ég hef átt þetta samtal við ráðherrana áður, og þar er hægt að styðjast við fleiri spár en Hagstofunnar. Í þessari fjármálaáætlun er t.d. gert ráð fyrir tiltölulega lágri verðbólgu. Ég vil segja það úr þessum stól að ég held að verðbólgan sé eitthvað sem við þurfum að óttast. Verðbólgan hefur alltaf farið á flug við fall í hagkerfi okkar. Ég veit að aðstæðurnar eru ekkert nákvæmlega eins og í síðasta hruni, bara langt í frá, en þegar gengi krónunnar gefur eftir um 15–17% hefur það alla jafna skilað sér í verðbólgu. Við vonum það besta auðvitað. Ég hélt svipaða ræðu þegar við vorum að ræða fjáraukalögin, um að verðbólguspárnar væru of bjartsýnar, og svo kom á daginn að bæði Seðlabankinn og fleiri aðilar höfðu verið að hækka sínar verðbólguspár. Verðbólgan er eitthvað sem við þurfum að passa okkur sérstaklega vel á. Hún er eitur í beinum Íslendinga eins og allir vita.

Annað sem ég vil vekja athygli á í þessari fjármálaáætlun til fimm ára er að það glittir í niðurskurð eftir tvö ár, við skulum kalla það óútfærðan niðurskurð. Það er hugsanlegt að mæta honum með skattbreytingum en það er niðurskurður sem við þurfum að passa okkur á. Samfylkingin vill frekar lengja tímabilið sem það tekur að greiða niður hallann. Ég veit að hallinn er mikill og við þurfum að greiða hann niður, að sjálfsögðu, en það liggur ekki eins mikið á að greiða þennan ríkishalla niður og þann sem við þurftum að greiða niður eftir bankahrunið því að sá halli var m.a. fjármagnaður af erlendu fé. Það sem ég óttast ef við förum í harkalegan niðurskurð eftir rúm tvö ár er að það muni bitna á þeim hópum sem njóta opinberrar þjónustu. Og hverjir eru það? Það er fátækt fólk, öryrkjar, eldri borgarar, námsmenn og sjúklingar. Það eru þessir hópar sem nýta þjónustu hins opinbera og langstærstur hluti ríkisfjármálanna á að sjálfsögðu fara í félags- og heilbrigðismál. Ef menn ætla að fara að ná einhverjum tölum niður of harkalega og of hratt þá mun það bitna á þeim hópum þannig að ég vil hvetja hæstv. ráðherra og þingmenn alla — þarna verður nú komin ný ríkisstjórn — til að taka lengri tíma í að greiða þennan sögulega halla niður. Það liggur ekki svona mikið á því.

Þriðja atriðið sem mig langar að nefna, sem ég nefndi líka á sumarþinginu, er að í þessari fjármálaáætlun er haldið í aðhaldskröfu. Ég veit að hún er ekki stór en hún er samt engu að síður fyrir hendi gagnvart sjúkrahúsum og skólum fyrir þetta ár og næsta. Mér finnst skjóta skökku við að við séum með þessa aðhaldskröfu, þótt lítil sé þá skiptir samt máli, á tímum Covid, að við séum að setja aðhaldskröfur á þessar stofnanir. Það er aðhaldskrafa 2021 og 2022 en það er svo merkilegt að það er engin aðhaldskrafa á sjúkrahús og skóla árið 2023 og 2025. Ég hefði haldið að þetta ætti að vera öfugt, að við ættum að ekki hafa aðhaldskröfu á sjúkrahús, heilsugæslur, öldrunarstofnanir og skóla á tímum Covid en þegar við erum búin að vinna bug á Covid geta menn innleitt aðhaldskröfu, kjósi þeir svo.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði um daginn í viðtölum að í ljósi stöðunnar þyrftum við einfaldlega hlaupa hraðar, staðan væri þannig. Ég velti fyrir mér hverjir eigi að hlaupa hraðar. Er það hjúkrunarfræðingurinn? Er það lögreglan? Er það sjúkraliðinn, skólaliðinn, kennarinn? Eru það öryrkjar, námsmenn? (Gripið fram í: Þingmenn.) Já, þingmenn. Ég velti fyrir mér hvort við séum að varpa byrðunum á þá sem eru nú þegar of hlaðnir verkum. Við þurfum að gæta að því á hverjum höggið lendir. Við höfum ítrekað tekist á það um í þessum sal hvort hægt sé að dreifa byrðunum jafnar þegar kemur að ríkisútgjöldum og ekki síst þegar kemur að ríkistekjum.

Ég ætla að fara aðeins í tölur. Þetta er eðli málsins samkvæmt þingmál um tölur. Ég var gagnrýndur fyrir að vera of mikið í prósentum en mér finnst það ekkert sérstaklega beitt gagnrýni. Mér finnst allt í lagi að skoða tölur. Fjárlög snúast um tölur og það er gott að setja þær í prósentusamhengi. Í andsvari mínu flaggaði ég sex málefnasviðum. Ég hvet fólk til að skoða fjármálaáætlun og töflu 7. Ef fólk treystir ekki þessum tölum úr mínum munni kemur svart á hvítu fram að það eru a.m.k. sex málaflokkar sem fá minna árin 2020 og 2021, ólíkt öðrum málaflokkum. Það er ekki eins og allir málaflokkar lendi í þessu. Þetta eru málaflokkar eins og nýsköpun og rannsóknir. Lækkunin þar er 23%. Það er mikil lækkun. Við sjáum að samgöngumálin lækka um 31% á fimm árum og menning, listir, íþróttir og æskulýðsstarf lækkar. Af hverju verið að lækka það? Það lækkar um 13% á næstu fimm árum.

Svo eru það umhverfismálin sem er forgangsmál ríkisstjórnarinnar, alla vega í orði. Heildartala sem fer í málefnasviðið umhverfismál hækkar um rúm 4% á milli 2021 og 2025. Það er málaflokkur sem ætti bara að fara vaxandi, algerlega. Við ættum alltaf að setja myndarlega í þann málaflokk. Loftslagsvandinn er ekki vandi sem er háður Covid. Þetta er vandi sem við þurfum að taka mjög alvarlega, hvort sem það er til skamms tíma eða til lengri tíma. Framhaldsskólastigið fær eiginlega sömu fjármuni árið 2021, 2022, 2023, 2024 og 2025. Hér er margbúið að boða menntasókn og ég átta mig ekki á því að hún geti falist í því að halda bara sjó þar. Svo er svolítið sérkennilegt, við ræðum þetta að sjálfsögðu betur í nefndinni, að hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustan fær örlitla lækkun á fimm árum. Ég skil það ekki í ljósi þess að þjóðin er að eldast.

Ekki er hægt að segja að það eigi sér eðlilegar skýringar að allt sé að lækka milli 2021 og 2025 því að langflestir málaflokkar hækka. Yfirleitt erum við alltaf að bæta í. Við erum með verðlagsuppbætur og síðan birtist pólitíkin í einstaka málaflokkum þar sem menn vilja bæta í. Þetta eru lykilmálaflokkar sem ég myndi telja að mörgum í stjórnarflokkunum væri annt um; umhverfismál, menning, nýsköpun, samgöngumál og hjúkrun. Þetta eru engir jaðarmálaflokkar. Þetta er eitthvað sem við þurfum að fá skýringu á.

Ef ég fer í einstaka þætti þá er sérkennilegt að sjá í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi, sem við ræddum aðeins í gær, ákveðna þætti sem fá beinlínis lækkun á næsta ári. Og hverjir eru það sem fá lækkun á næsta ári? Það er Ríkisútvarpið. Það er Samkeppniseftirlitið. Það er liður sem kallast Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla. Útlendingamálin fá lækkun á næsta ári. Háskólinn á Akureyri fær lækkun eftir næsta ár, sem ég átta mig ekki alveg á. Garðyrkjan stendur í stað eftir næsta ár. Það kemur aðeins aukning á næsta ári og svo stendur hún bara í stað. Ég hélt að við værum einmitt sammála um að stórefla stuðning við garðyrkjuna, innlenda grænmetisframleiðslu, allt frá hægri til vinstri og miðjan. Ég hélt að við gætum a.m.k. sameinast um það en ekki virðist vera meiri metnaður en svo að menn ætli bara að halda sjó þar. Barnabæturnar standa í stað næstu fimm árin. Vaxtabæturnar eru nánast horfnar. Ég nefni þetta sem dæmi því að síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn setti hún í alvörunni helmingi meira í barnabætur og vaxtabætur en það sem þessi ríkisstjórn gerir, helmingi meira á kjörtímabilinu. Pólitíkin verður ekki skýrari hvað þetta varðar.

Síðan get ég fundið hérna einstakar stofnanir sem er sérstakt að fái lækkun miðað við verkefnin sem þær eru að kljást við. Ég nefni sem dæmi Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Hún fær lækkun eftir næsta ár þrátt fyrir biðlista og mikla þörf. Sú aukning sem má finna í þessu plaggi til öryrkja og aldraðra er fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi, enda hafa bæði Öryrkjabandalagið og Félag eldri borgara ályktað frekar harkalega gegn þessum plöggum. Ef fólk heldur að þetta sé einhver pólitískur leikur sem kemur úr þessum stól þá er það bara alls ekki. Ég vitna ítrekað í umsagnaraðila og hagsmunaaðila og ég er að segja nákvæmlega það sem þeir segja. Öryrkjabandalagið er mjög harðort og segist sjá litla von í þessu frumvarpi og í fjármálaáætlun.

Ég er búinn að fara svolítið yfir atvinnuleysið sem er okkar stærsti óvinur. Það eru 20.000 störf horfin og stefnir í að 25.000–30.000 Íslendingar verði atvinnulausir. Við verðum að beita öllum tiltækum ráðum til að minnka atvinnuleysið. Aftur sýna tölurnar að metnaðurinn er ekki meiri en svo að samkvæmt þeim forsendum sem liggja að baki þá á atvinnuleysi að minnka um — takið eftir — 1 prósentustig. Þrátt fyrir innspýtingarnar, þrátt fyrir öll þessi risafjárfestingarátök og nýsköpunarátök, sem ég tel ekki uppfylla skilgreininguna á orðinu átök, þá lækkar atvinnuleysi einungis um 1 prósentustig. Það er einfaldlega allt of lítið, herra forseti. Þetta er ekki eitthvert hefðbundið pólitískt yfirboð. Ég vil ekki að fólk líti á það þannig. Ég er bara kallað eftir metnaðarfullri tillögu á tímum neyðarástands. Nú er sérstaklega lag til að gera slíkt, herra forseti.