151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanni svarið. Sannarlega vona ég að okkur takist að vaxa út úr þessum erfiðu aðstæðum og þá með auknum hagvexti. En það verður að segjast eins og er að líkurnar á því að það náist fyllilega með þeim hætti eru ekki miklar að mínum dómi.

Mig langar aðeins að koma inn á það við hv. þingmann að umfangsmiklar lántökur hins opinbera eru fyrirsjáanlegar á næstu árum. Það er ákaflega mikilvægt í því sambandi að fjármálastefnan og peningastefnan og fjármálaáætlun vinni saman en hins vegar getur það haft áhrif á einkageirann ef ríkisvaldið er svona sterkur aðili á lánamarkaði. Það hefði verið æskilegt ef meira hefði verið fjallað um samspil fjármálastefnu og peningastefnu í þessari fjármálaáætlun, ef hv. þingmaður gæti komið inn á það, þ.e. lántökur hins opinbera.

Svo eru það þessar breytingar á hagvexti fyrir næsta ár og spurningar um atvinnuleysi og þær tölur sem þar eru settar fram. Nú eru komnar dekkri spár um atvinnuleysi, því miður. Það eru töluverðar líkur á því að atvinnuleysi geti orðið meira en gert er ráð fyrir og þá spyr maður: Er ekki sú hætta fyrir hendi núna, hv. þingmaður, að það sé vanmat á útgjöldum til atvinnuleysisbóta í þessari áætlun og í frumvarpinu? Ég held að það gæti farið svo að þetta færi yfir 100 milljarða sem er gríðarlegt tekjufall fyrir ríkissjóð, eða útgjöld, það er betra að orða það þannig. (Forseti hringir.) Það er ákaflega mikilvægt að skapa störfin og þar höfum við í Miðflokknum viljað leggja meiri áherslu á tryggingagjald. Ef hv. þingmaður gæti aðeins farið yfir þessa tvo þætti.